Soðnir álar í Fossvogslæk!

11. júlí 2007

Glöggur vegfarandi hafði samband við Náttúrufræðistofuna síðastliðinn mánudag (9. júlí) og lét vita af dauðum fiskum í Fossvogslæk. Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða ála (Anguilla anguilla). Á nær 500 m löngum kafla frá ósi í Fossvogi og til móts við Birkigrund í Kópavogi sáust nær 40 dauðir álar.

mynd95.jpgMánudag 9. júlí varð óhapp í heitavatnskerfi Orkuveitu Reykjavíkur í Fossvogi, en þá gaf sig vatnslögn og um tíma streymdi 90 ºC heitt vatn niður Eyrarland og út í Fossvogslæk. Ekki liggur fyrir hve mikið af heitu vatni rann í lækinn, en miðað við umfang fiskdauðans lítur út fyrir að það hafi verið umtalsvert magn.

Á um 500 m löngum kafla frá ósi í Fossvogi og til móts við Birkigrund, þar sem heita vatnið rann út í lækinn, sáust um 40 dauðir álar í vettvangskönnun á mánudag.mynd92.jpg Þetta er töluverður þéttleiki þegar horft er til þess hve Fossvogslækur er lítill um sig.

Álarnir voru misstórir, á bilinu 12-50 cm langir. Á rannsóknastofu Náttúrufræðistofunnar voru fimm álar mældir og voru þeir 14,0 cm (3 grömm), 17,7 cm (6,2 g), 18,6 cm (8,1 g), 22,5 cm (16,6 g) og 46,5 cm (151,1 g). Auk álanna fannst dauður urriði, um 20 cm langur, miðja vegu milli óss og ræsisins undir Kringlumýrarbraut.

mynd96.jpgFullvaxnir álar hrygna í Þanghafinu út af Mexíkóflóa í 4000-5000 km fjarlægð frá Íslandi. Seiðin (lirfurnar) berast með Golfstrauminum til Evrópu og það tekur álana 2-3 ár að komast til Íslands. Þá eru álarnir 6-10 cm langir (glerálar) og ganga í ár og vötn (mars-ágúst). Álarnir (gulálar) eyða 5-15 árum í ferksvatni og taka þar út allan vöxt sinn. Um haust (október-nóvember) leita fullvaxta álar (30-70 cm) til sjávar á ný og stefnan tekin á Þanghafið þar sem æxlun á sér stað og hrygning í kjölfarið.

Það er engin nýlunda að álar finnist í Fossvogslæk. Sagnir þar um eru til frá framanverðri 20. öld, og Pétur Sveinsson frá Snælandi segir að álar hafi gengið langt upp í lækinn og að hann hafi verið 20-30 cm langur (sjá bókina Saga Kópavogs. Saga lands og lýðs. 1990. Ritstj. Árni Waag. I. bindi. bls. 146).


Hér er meiri fróðleikur um ála.