Mikið um ranabjöllur

08. ágúst 2007

Undanfarna daga hefur verið óvenju mikið um brúnleitar bjöllur sem slæðast inn í hús heimilisfólki til nokkurs ama. Um er að ræða ranabjöllur, sennilega svokallaðan trjákepp (Otiorhynchus singularis).

mynd105.jpgBjöllur þessar eru á bilinu 6-8 mm að lengd og brúndröfnóttar. Þær hafa harða og grófgerða skel, framteygðan haus og fálmara fremst á trjónunni. Bjöllurnar lifa utan dyra þar sem þær nærast á gróðri en eiga þó til að villast inn í hús. Að sögn ber meira á þeim í herbergjum sem snúa undan sól, en væntanlega koma þær inn um opna glugga. Mest virðist vera um bjöllurnar þar sem stórir garðar eru í góðri rækt.

Undanfarin ár hefur verið töluvert um fyrirspurnir varðandi ranabjöllur á þessum árstíma en í ár virðist vera sérlega mikið af þeim. Vera má að hið góða tíðarfar seinnipartinn í sumar hafi skapað ákjósanlegar aðstæður fyrir þær. Myndin er af einu hinna fjölmörgu eintaka sem okkur hafa borist undanfarna daga.