Fúsi froskur til sýnis!

08. ágúst 2007

mynd102.jpgÞau eru æði misjöfn erindin sem berast Náttúrufræðistofunni þessa dagana. Óvenju margar tilkynningar hafa borist um fágæt dýr. Þar á meðal um sjaldgæf svarmfiðrildi, svartar blaðlýs, silakeppi, blóðsugur og síðast en ekki síst, tilkynning um lifandi frosk.

Froskurinn, sem við köllum Fúsa flakkara, barst fyrir skömmu til Íslands með grænmetissendingu í flugvél frá Evrópu. Heimkynni frosksins eru annaðhvort Belgía eða Holland. Hann fannst í eldhúsi í Reykjavík þegar verið var að útbúa salat fyrir matargesti. Ólíkt mörgum bræðrum sínum var Fúsi flakkari þó ekki étinn!

mynd103.jpgFroskar tilheyra flokki froskdýra (Amphibia) en það er einn fimm flokka hryggdýra. Hinir eru spendýr (Mammalia), skriðdýr (Reptilia), fiskar (Pisces) og fuglar (Aves). Froskdýrin skiptast í þrjá ættbálka: Anura (froskar og körtur), Urodela (salamöndrur) og Gymnophiona (ormakörtur, sem eru fótalaus dýr sem minna á slöngur).

Talið er að til séu um 5.400 tegundir froskdýra á jörðinni í dag. Froskdýr finnast í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu.

Froskar lifa ekki í náttúru Íslands og ræður lágt hitastig líklega þar mestu um. Hér er of kalt í of langan tíma á veturna.

Froskar eru mjög háðir vatni. Þeir klekjast sem lirfur úr eggi ofan í vatni og ala aldur sinn þar á halakörtustiginu. Fullvaxta froskar, þurfa á röku umhverfi að halda og lifa að miklu leyti í og við vötn. Þeir eru rándýr og éta mest skordýr, maðka og krabbadýr.

Eins og sjá má af myndinni er Fúsi smávaxinn og getur látið fara vel um sig á fleti sem er á stærð við 100 krónu pening. Sennilega er um að ræða ungviði af tegundinni Bufo bufo (sem er raunar karta), en hún er algeng um mest alla Evrópu.