Breytt ásýnd Borgarholtsins

28. ágúst 2007

mynd107.jpgÞeir sem leið hafa átt um Borgarholtsbraut í Kópavogi hafa líklega tekið eftir því að útlit Borgarholtsins hefur breyst töluvert í sumar. Ásýnd holtsins hefur færst nær því horfi þegar það var friðlýst árið 1981. Þetta er afrakstur af aðgerð sem bæjarráð Kópavogs samþykkti í febrúar síðastliðnum. Um er að ræða verkefni sem hófst í vor og felst í því að hefta sókn trjágróðurs inn á friðlýst svæði Borgarholts.

mynd108.jpgBorgarholt í Kópavogi með fagurskapaða Kópavogskirkju á kollinum og sæbarða grágrýtishnullunga allt í kring er vafalítið eitt helsta kennileiti Kópavogs. Holtið var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981 vegna jarðfræðilegrar sérstöðu, en á holtinu gefur að líta hvað gleggstar minjar á höfuðborgarsvæðinu um hæstu sjávarstöðu á Suðvesturlandi frá lokum síðustu ísaldar. Náttúrufræðilegt gildi holtsins felst einnig í því að þar er óvenjumikið af villtum háplöntutegundum, eða um fjórðungur af íslensku flórunni. Þá vaxa þar um 100 tegundir af mosum.

Í kjölfar rannsóknar sumarið 2003 á gróðri í Borgarholti sem Náttúrufræðistofa Kópavogs og garðyrkjustjóri Kópavogs áttu frumkvæði að og framkvæmd var af Náttúrufræðistofnun Íslands, varð ljóst að ef ekkert yrði aðhafst myndi hið grjóti prýdda holt fyrr en seinna hverfa sjónum vegna trjágróðurs. Trjágróðurinn sem hér um ræðir er að mestu birki, sem að töluverðu leyti er komið úr nærliggjandi görðum.

mynd109.jpgÁ fjölmennu málþing sem haldið var í september 2005 hér í Safnahúsinu um framtíð Borgarholtsins var samþykkt einróma að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að Borgarholtið hyrfi mönnum sjónum í ört vaxandi trjágróður. Aðgerðaáætlun með tillögum garðyrkjustjóra og forstöðumanns Náttúrufræðistofu Kópavogs um grisjun trjágróðurs var samþykkt af umhverfisráði Kópavogs í janúar s.l. og af bæjarráð Kópavogs 8. febrúar 2007.