Dr. Paul Alan Cox í heimsókn

30. ágúst 2007

Prófessor Paul Alan Cox, kunnur umhverfisverndarsinni og virtur plöntuvistfræðingur og fræðamaður um grasnytjar eyjaskeggja kom í óvænta heimsókn á Náttúrufræðistofuna miðvikudaginn 29. ágúst s.l. Með í för voru dr. Tatsuya Togashi frá Japan, og Benedikt Sigurbjörnsson og Guðrún Kristjánsdóttir, góðvinir dr. Cox í tengslum við fyrirtækið Nu Skin Enterprises.

mynd111.jpgMegintilgangur heimsóknarinnar var að skoða hinn einstaka kúluskít sem er til sýnis á Náttúrufræðistofunni, en dr. Paul Alan Cox er mikill áhugamaður um þennan fágæta grænþörung. Þetta er í annað skiptið sem dr. Cox kemur til Íslands. Í bæði skiptin er það kúluskíturinn í Mývatni sem dregur hann til landsins. Hið stóra kúlulaga vaxtarform kúluskítsins er aðeins þekkt í þremur stöðuvötnum á jörðinni, en auk Mývatns finnst kúluskítur í Akanvatni á Hokkaídóeyju í Japan og í Öisuvatni á Eistlandi. Nánari upplýsingar um kúluskítinn má lesa á heimasíðu Náttúrufræðistofunnar.

Í Mývatnssveit hitti Cox forstöðumann Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, dr. Árna Einarsson, en Árni er hvað manna fróðastur um þennan merkilega grænþörung. Margt er á huldu um líffræði kúluskítsins og sem dæmi má nefna að nær ekkert er vitað um hvernig hann verður til og eða fjölgar sér. Þessa og fleiri þætti í lífi kúluskítsins ætla Cox og Togashi að rannsaka betur, m.a. með hjálp reiknilíkana.

Dr. Cox hefur helgað sig rannsóknum á vistfræði plantna á eyjum og jafnframt hefur hann kynnt sér í þaula grasnytjar hjá eyjafrumbyggjum. Hann er vel þekktur á alþjóðavettvangi fyrir störf á sviði plöntuvistfræði og hagnýtingu plantna í lækningaskyni. Hann er ekki síður kunnur fyrir ötula baráttu gegn eyðingu eyjaregnskóga og fyrir verndun á frumbyggjamenningu eyjaskeggja.

Dr. Cox er stofnandi og stjórnarformaður umhverfisverndarsamtakanna Seacology, en aðalhlutverk þeirra er að standa vörð um náttúru og menningu eyja á jörðinni. Samtökin úthluta styrkjum til verkefna sem stuðla að menntun og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Meðal verkefna sem Seacology hafa styrkt á eyjum víða um jörð má nefna byggingu skóla, sjúkrahúsa og vatnsbóla. Samtökin hafa meðal annars styrkt tvö verkefni hér á Íslandi, annað í Árneshreppi og hitt í Mývatnssveit .

Dr. Cox hefur hlotnast margvíslegur heiður fyrir störf sín í þágu verndunar á eyjanáttúru og menningu eyjarskeggja. Árið 1997 hlaut hann m.a. hin virtu Goldman umhverfisverðlaun, þau hin sömu og Orri Vigfússon hlaut í vor sem leið fyrir baráttu sína gegn netveiði á laxi í sjó.


Nánar má lesa um starfsferil dr. Cox hér.