Meintur spánarsnigill til sýnis

09. september 2007

Þessi stóri og rauðleiti snigill var gripinn við þröskuld einn í Kópavogi. Hann var handtekinn og fluttur til greiningar á Náttúrufræðistofuna. Líklega er um að ræða spánarsnigill (Arion lusitanicus) sem tilheyrir ættinni Arionidae, en það eru sniglar sem ekki hafa kuðung. Snigillinn verður fyrst um sinn til sýnis á Nátturufræðistofunni.

mynd116.jpgEnn sem komið er er ekki hægt að skera úr um að hér sé á ferð spánarsnigill. Til að slá föstu um það þarf að senda hann út til krufningar í Svíþjóð. Ef grunur okkar reynist réttur gæti snigillinn verið einn af örfáum sem fundist hafa hér á landi síðan 2003. Þeir hafa sennilega borist með erlendum plöntum og jarðvegi. Snigillinn getur orðið allt að 15 sm langur og er oftast rauðbrúnn að lit.

Eins og nafnið gefur til kynna á hann upprunaleg heimkynni á Spáni og í löndunum þar í kring. Hann hefur síðan borist víða um Evrópu, meðal annars til Noregs.

Spánarsnigillinn leggur sér ýmislegt til munns og er ekki matvandur; rósarunnar, túnfíflar og rotnandi gróðurleifar þykja mikið góðgæti. Hann fúlsar jafnvel ekki við hundaskít!

Litið er á spánarsnigill sem plágu vegna þess skaða sem hann veldur í görðum. Sem dæmi má nefna að heilu kartöflugarðarnir hafi eyðilagst vegna át hans á ungum kartöflugrösum. Í góðri rigningartíð má telja allt að 50 stykki á einum fermetra.

Hvort spánarsnigillinn er kominn til að vera er erfitt að meta, en hann virðist kunna vel við sig í úthafsloftslaginu hér. Ekkert dýr hérlendis virðist leggja sér snigilinn til munns, en erlendis gera það t.d. broddgeltir, greifingjar og villisvín. 

Þetta er all stór hryggleysingi á íslenskan mælikvarða, tæpir tíu sentimetrar þegar hann teygir úr sér.

Frekari upplýsingar og heimildir um spánarsnigla er að finna á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.