Risastór sýningargripur

16. október 2007

mynd129.jpgNýjasti sýningargripurinn í fórum Náttúrufræðistofunnar er í senn mikill um sig og einkar áhugaverður. Þetta er liðlega tveggja metra breið sneið af rauðviði (strandfuru), þjóðargjöf Bandaríkjamanna til Íslendinga árið 1985 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Sneiðin hefur lengst af verið til sýnis í Háskólabíói en verður nú um sinn á Náttúrufræðistofunni.

mynd131.jpgRauðviður (Sequoia sempervirens), einnig nefndur strandfura, vex nú til dags einungis villtur á mjóu belti á vesturströnd Bandaríkjanna, frá syðsta hluta Oregon-fylkis suður fyrir San Francisco í Kaliforníu. Á tertíer-tímabilinu, fyrir 1,8-60 milljón árum, óx rauðviður víða á norðurhveli jarðar, m.a. á Íslandi.

Rauðviður er barrtré sem getur orðið 2200 ára gamalt, en meðalaldur rauðviðartrjáa er um 600 ár. Hann er ein hávaxnasta trjátegund á jörðinni. Hæsti rauðviður sem hefur verið mældur var 112 m. Risafuran (Sequoiadendron giganteum), sem vex sunnar í Kaliforníu, verður helmingi eldri og miklu gildari, en ekki eins há.

Tréð, sem furusneiðin er af, óx nálægt ánni Klamath í Kaliforníu og var rúmlega 1300 ára gamalt þegar það var fellt árið 1984. Það var um 85 m hátt og 4 m í þvermál niðri við jörð. Sneiðin var söguð af bolnum 50-60 m frá rótum og er hún 2,42 m í þvermál þar sem hún er breiðust og vegur rúmt tonn.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Bandaríkjanna afhenti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Nicholas Ruewe, forsætisráðherra Íslands, Steingrími Hermannssyni, sneiðina þann 14. nóvember 1985 í Háskólabíói. Við það tækfæri las bandaríski sendiherrann upp ávarp Ronald Regan, forseta Bandaríkjanna. Náttúrufræðistofnun Íslands var falinn gripurinn til vörslu og ákveðið var að hafa sneiðina til sýnis í Háskólabíói þar til Náttúrufræðistofnun eignaðist viðunandi húsnæði til sýningarhalds.

Nú 22 árum síðar getur Háskólabíó hvorki hýst þjóðargjöfina lengur né er Náttúrufræðistofnun Íslands í stakk búin til að veita henni móttöku með sómasamlegum hætti. Því var ákveðið að fela hinu nýstofnaða Náttúruminjasafni Íslands umsjón með rauðviðarsneiðinni, enda er um að ræða kjörgrip til sýningar.

Þar sem sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands að Hlemmi er fremur lítið og erfitt um aðkomu, varð samkomulag um að geyma furusneiðina á Náttúrufræðistofu Kópavogs, en þar er aðstaða til sýningarhalds ágæt. Þjóðargjöfin verður til sýnis í anddyri Náttúrufræðistofu Kópavogs þar til úr rætist með húsnæðismál Náttúruminjasafns Íslands.