Þingvallavatn vaktað

16. október 2007

Í vor sem leið hófst vöktun á vatnsgæðum og lífríki Þingvallavatns og stýrir Náttúrufræðistofa Kópavogs verkefninu. Um er að ræða samstarf milli Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Umhverfisstofnunar, Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Auk Náttúrufræðistofunnar koma Jarðvísindastofnun Háskólans og Veiðimálastofnun að verkefninu.

mynd128.jpgVöktunin í Þingvallavatni mun veita mikilvægar upplýsingar um grunnþætti í lífríki vatnsins sem eru nauðsynlegar til að stuðla að verndun þess. Meginmarkmið vöktunarinnar er að beita samfelldum mælingum til langs tíma svo unnt verði að kortleggja hugsanlegar breytingar á lífríki vatnsins vegna álagsþátta, s.s. vegna frárennslis af manna völdum, umferðar, loftslagshlýnunar og veiðinytja.

Vöktunin er all merkur áfangi í sögu íslenskra vatnalíffræðirannsókna með hliðsjón af því hve verkefnið nær til margra þátta og er heildstætt, auk þess að vera hugsað til frambúðar.

Fylgst verður með efnafræðiástandi úti í vatninu og í að- og frárennsli þess, og auk þess skráður vatnshiti, sýrustig og rýni (sjóndýpi), en rýni segir til m.a. um magn þörunga í vatninu. Hvað lífríkið áhrærir verður fylgst með magni og tegundasamsentingu þörunga og svifdýra og sýni tekin á mismunandi dýpi og árstímum til að fá yfirsýn yfir breytileika lífríkisins í tíma og rúmi. Einnig verður fylgst með fiskistofnum í vatninu, m.a. með árlegri sýnatöku á murtu, en þessi vöktunarþáttur hefur staðið yfir í tæpa þrjá áratugi á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs og Líffræðistofnunar Háskólans.

Lífríki Þingvallavatns er um margt mjög merkilegt og sérstakt. Má nefna að fjölbreytileiki bleikju í vatninu er líklega einstakur á Norðurhveli, en í vatninu lifa fjögur bleikjuafbrigði sem eru afar ólík í útliti og lífsháttum. Þá fundust nýlega afar merkileg krabbadýr í vatninu, blindar og nær litlausar marflær sem hafast við neðanjarðar í lindarvatninu, og er um að ræða tvær nýjar tegundir fyrir vísindin.

Árið 2005 samþykkti Alþingi Íslendinga lög um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Þingvellir eru auk þess á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), en á skránni eru menningar- og náttúruminjar sem taldar eru hafa einstakt gildi fyrir heimsbyggðina alla.

Hjá Náttúrufræðistofunni lauk fyrir skömmu fjórðu og síðustu vettvangsferðinni í ár. Úrvinnsla á sýnum stendur yfir, en hluti sýna er sendur erlendis til greiningar. Í lok hvers árs verður gefin út skýrsla með samanteknum niðurstöðum allra vöktunarþátta. Stefnt er að því að birta á veraldarvefnum niðurstöður tiltekinna þátta á borð við vatnshita, sýrustig og rýni, jafnóðum og mælingar á þeim liggja fyrir. Upplýsingarnar munu verða aðgengilegar m.a. á neti Náttúrufræðistofunnar og Þjóðgarðsins á Þingvöllum.