Samningar undirritaðir

05. desember 2007

mynd139.jpgÁ Náttúrustofuþingi í Bolungarvík þ. 21. nóvember s.l. Var undirritaður samningur um samstarf í rannsóknum á náttúrufari landsins milli Náttúrufræðistofu Kópavogs og Samtaka náttúrustofa. Samskonar samningur var einnig undirritaður milli Veiðimálastofnunar og Samtaka náttúrustofa.

mynd140.jpgMarkmið samningsins er að efla samstarf og faglegt samráð samningsaðilanna um rannsóknir í náttúru- og umhverfisfræðum. Þannig eflist starfsemi stofnananna m.a. með samvinnu starfsfólks og samnýtingu á aðstöðu. Með þessu móti er mætt mikilli og vaxandi þörf í landinu fyrir rannsóknir á þessu sviði, ekki síst á landsbyggðinni. Lögð verður áhersla á að samstarfið leiði til þekkingar í hæsta gæðaflokki sem standist alþjóðleg viðmið.

Náttúrustofuþingið í Bolungarvík var haldið í tengslum við ársfund Samtaka náttúrustofa. Samtök náttúrustofa voru stofnuð árið 2002 og eru aðilar að þeim sjö náttúrustofur á landinu sem starfræktar eru af ríki og sveitarfélögum samkvæmt lögum nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofunun Íslands og náttúrustofur. Náttúrustofurnar sjö eru: Náttúrustofa Norðurlands vestra, Náttúrustofa Norðausturlands, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúrustofa Reykjaness, Náttúrustofa Vesturlands og Náttúrustofa Vestfjarða.


Náttúrufræðistofa Kópavogs stendur utan við Samtök náttúrustofa enda kemur ríkið ekki að starfrækslu Náttúrufræðistofunnar með beinum hætti eins og hjá hinum náttúrustofunum, heldur starfar stofan samkvæmt eigin stofnskrá og reksturinn alfarið á hendi Kópavogsbæjar.

Náttúrustofuþingið var haldið á Náttúrugripasafni Bolungarvíkur og fjölbreytt dagskrá í boði.