Áhrif Mýraelda á vatn – nýjar niðurstöður

08. febrúar 2008

mynd147.jpgÍ kjölfar gróðureldanna miklu sem geisuðu á Mýrum vorið 2006 hófust strax það ár viðamiklar rannsóknir á brunanum og áhrifum eldanna á vistfræði svæðisins. Náttúrufræðistofa Kópavogs sér um rannsóknir á vatnsgæðum og vatnalífríki en um aðra þætti sjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskóli Íslands. Nýjustu rannsóknaniðurstöður á eðlis- og efnaþáttum frá sumrinu 2007 liggja nú fyrir hjá Náttúrufræðistofunni.

mynd146.jpgRannsóknir Náttúrfræðistofu Kópavogs á áhrifum Mýraelda lúta annars vegar að efna- og eðlisþáttum ferskvatns og hins vegar að áhrifum á vatnalífríki. Rannsóknirnar hófust strax sumarið 2006 og voru niðurstöður það árið kynntar á Fræðaþingi landbúnaðarins dagana 16.-17. febrúar 2007:

Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson. 2007. Áhrif Mýraelda á eðlis- og efnaþætti vatns sumarið 2006. Fræðaþing landbúnaðarins 2007: 349–356.

Haraldur R. Ingvason, Finnur Ingimarsson, Stefán Már Stefánsson og Hilmar J. Malmquist. 2007. Áhrif Mýraelda á smádýralíf í vötnum sumarið 2006. Fræðaþing landbúnaðarins 2007: 440–445.

Rannsóknir Náttúrufræðistofunnar vegna Mýralelda héldu áfram sumarið 2007 og liggja niðurstöður frá þeim tíma nú fyrir á eðlis- og efnaþáttum. Mæliniðurstöðurnar benda ekki til þess að eldarnir hafi haft nein umtalsverð áhrif á vatnsgæði, ekki fremur en árið 2006. Engu að síður var um merkjanleg áhrif að ræða, rétt eins og sumarið 2006. Brunaáhrifn lýstu sér í hærri rafleiðni og einkum í meiri basavirkni í vötnunum á brunnu svæði en óbrunnu og má líklega rekja til hærri katjónastyrks (Ca, Mg og Na) í vötnunum á brunna svæðinu. Einnig var styrkur næringarefnanna fosfórs, fosfats og köfnunarefnis óvenju lítill í vötnunum á brunna svæðinu og líktist helst því sem búast má við í djúpum næringarsnauðum vötnum. Þvert á það sem reiknað var með var næringarefnastyrkur í vötnunum á brunna svæðinu yfirleitt mun minni en í vötnunum á óbrunna svæðinu. Rýrt næringarefnaástand vatnanna á brunna svæðinu kann að standa í sambandi við öran endurvöxt gróðurs á brunna svæðinu. Sett er fram sú tilgáta að mikil nýmyndun plöntuvefs á brunna svæðinu, einkum meðal smárunna, bindi næringarefni og komi í veg fyrir að þau skili sér út í vötnin. Þegar fram líða stundir ætti jafnvægi að nást í gróðurframvindunni og næringarefnastyrkur í vötnunum á brunna svæðinu að verða svipaður því sem mælist í vötnunum á óbrunna svæðinu. Nánar má lesa um rannsóknaniðurstöðurnar varðandi vatnsgæðin frá sumrinu 2007 í eftirfarandi grein:

Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson. 2008. Áhrif Mýraelda vorið 2006 á eðlis- og efnaþætti vatns sumarið 2007. Fræðaþing landbúnaðarins 2008: 422–430.

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands er einnig gerð grein fyrir meginniðurstöðum í öllum helstu rannsóknaþáttum verkefnisins sem og fleiri gróðureldum.