Meistaraverkefni í boði!

21. febrúar 2008

mynd149.jpgÁ Náttúrufræðistofu Kópavogs stendur til boða verkefni fyrir nemanda í meistaranámi við Háskóla Íslands. Verkefnið snýst um fæðu hornsíla (Gasterosteus aculeatus) og hugsanleg áhrif sílanna á samfélagsgerð smálífvera. Verkefnið er launað að hluta til en auk þess er ráðgert að sækja um styrk til þess.

Óskað er eftir nemanda í meistaranám (MSc) við Háskóla Íslands í samstarfi við Náttúrufræðistofu Kópavogs. Aðalleiðbeinandi af hálfu Háskóla Íslands verður dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs H.Í á Vestfjörðum. Leiðbeinendur á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs verða dr. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður, og Stefán Már Stefánsson (MSc), sérfræðingur. Nemandinn mun hafa aðstöðu á Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Í boði verða laun til tveggja ára, allt að 2.400.000 kr. Náttúrufræðistofan leggur til helming launa en á móti er gert ráð fyrir að komi FS-styrkur (fyrirtækja- og stofnanastyrkur), sem sótt verður um til Rannís.

Verkefnið – efniviður Námsverkefnið snýst um fæðu hornsíla (Gasterosteus aculeatus) og hugsanleg áhrif sílanna á smálífverusamfélög vatna. Efniviðurinn er hornsíli úr sex grunnum vötnum á Mýrum í Borgarfirði sem rannsökuð hafa verið í tengslum við gróðureldanna miklu sem geisuðu á Mýrum vorið 2006. Um niðurstöður rannsókna á Mýrum má lesa hér. Um er að ræða gögn úr þremur vötnum á brunnu svæði og þremur vötnum á óbrunnu svæði. Gögn eru til frá sumrunum 2006 og 2007. Auk hornsílagagna liggja fyrir ýmis stoðgögn sem veita upplýsingar um vistfræðilega gerð og eðli vatnanna, þ. á m. gögn um fæðuframboð í fjöru og vatnsbol ásamt mælingum á efna- og eðlisþáttum. Magainnihald fyrirliggjandi hornsíla verður greint en til að fá haldbetri upplýsingar um fæðu sílanna, sér í lagi m.t.t. hugsanlegra áhrifa afráns síla á samfélög smádýra, er stefnt að sýnatöku síla sumarið 2008 til mælinga á stöðugum ísótópum. Gert er ráð fyrir að nemandinn taki fullan þátt í sýnatökunni.

Ýmislegt forvitnilegt hefur komið í ljós í kjölfar rannsóknanna í vötnunum á Mýrum. Meðal annars hefur þéttleiki hornsíla iðulega verið miklu meiri í vötnunum á brunna svæðinu en því óbrunna. Þéttleiki krabbadýra hefur hins vegar reynst öllu minni í vötnunum á brunna svæðinu.

Hugmyndafræði Niðurstöður rannsóknanna á Mýrum vekja upp margar áhugaverðar spurningar varðandi hornsílin á sviði vistfræðinnar, spurningar sem tengjast m.a. bestunarkenningum, „optimal foraging theory“ og „niche variation hypothesis“: • Á hverju lifa hornsíli í vötnunum á Mýrum og hvað ræður fæðuvali þeirra? Éta sílin einkum það sem mest er af hverju sinni og auðveldast að innbyrða, eða ráða aðrir þættir meiru? • Er fæðuval síla breytilegt eftir einstaklingum? Er um kynbundin mun að ræða í fæðuvali og eða ræður stærð fiskanna einhverju um hvað þeir éta? Er e.t.v. um að ræða þroskatengda fæðusérhæfingu? • Hefur át sílanna merkjanleg/mótandi áhrif á samfélagsgerð lífvera í vötnunum („top down vs. bottom up“)?

Nemandinn Nemandinn skal hafa BSc gráðu í líffræði ásamt áhuga og vilja til að takast á við verkefnið, jafnt fræðilega sem á útivettvangi og rannsóknarstofu. Neminn mótar jafnframt endanlegar rannsóknarspurningar verkefnisins í samráði við leiðbeinendur. Nánari upplýsingar veita Guðbjörg í síma 898 9037 (gaol@hi.is) og Hilmar í síma 570 0435 (hilmar@natkop.is).