Fjölbreytt dagskrá á Kópvogsdögum

29. apríl 2008

mynd152.jpgKópavogsdagar hefjast laugardaginn 3. maí næstkomandi og standa yfir í viku fram til 11. maí. Þetta er í sjöunda skipti sem Kópavogsbær stendur að Kópavogsdögum. Að venju er í boði fjölbreytt dagskrá á vegum menningarstofnana bæjarins. Náttúrufræðistofa Kópavogs lætur ekki sitt eftir liggja á Kópavogsdögum og býður upp á viðburði af ýmsu tagi.

Dagskrá Kópavogsdaga 3. – 11. maí 2008 á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs:

Laugardagurinn 3. maí. AÐLÖGUN – „Fiskurinn hefur fögur hljóð“ Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, opnar listasýningu Olgu Bergmann og Önnu Hallin í sýningarsölum Náttúrufræðistofunnar kl. 14:00. Sýningin stendur til 31. júlí. Á mynd156.jpgsýningu Önnu Hallin og Olgu Bergmann er ruglað saman reitum við sýningargripi Náttúrufræðistofunnar. Flest verkin eru unnin í samstarfi Önnu og Olgu og mætast þar náttúrulífsmyndir og ýmis tilbrigði við veruleikann í myndbandsverkum og innsetningu. Á sýningunni sýna Anna Hallin og Olga Bergmann ný verk þar sem meðal annars er komið við í heimi syngjandi þorska og dansandi marglyttna. Einnig er á sýningunni velt upp hugmyndum um framtíðarþróun íslenskrar náttúru. Nánar má fræðast um verk og lífshlaup Önnu hér og Olgu hér.

mynd153.jpgSunnudagurinn 4. maí. ÞRÍHNÚKAGÍGUR – Náttúrugersemi í Kópavogi Gönguferð á Þríhnúkagíg í Bláfjöllum í fylgd Hilmars J. Malmquist, forstöðumanns Náttúrufræðistofu Kópavogs. Þríhnúkagígur er gíghellir af fágætri gerð, annar stærsti á jörðinni, og umhverfi hans er stórfenglegt. Ferðin er farin í tengslum við athugun VSÓ-ráðgjafar á fýsileika Þríhnúkagígs sem ferðamannastaðar. Fyrirlestur um þetta málefni verður haldinn í Náttúrufræðistofunni miðvikudaginn 7. maí kl. 17:00 (sjá nánar hér að neðan). Náttúrufræðistofan hefur áður fjallað um Þríhnúkagíg með sýningu í anddyrinu sumarið 2004 og með útgáfu á bæklingi. Lagt verður af stað í samfloti einkabíla frá Náttúrufræðistofunni kl. 13:30 og hist kl 14:00 við gönguslóðann upp í Grindaskörð. Gera má ráð fyrir fjögurra klst. ferðalagi.

Mánudagurinn 5. maí. VALUR HVALUR
mynd154.jpgÆvintýri fyrir börn á leikskólaaldri í Safnahúsinu í umsjón starfsfólks Náttúrufræðistofu og Bókasafns. Um er að ræða fjörugt fræðsluerindi um hvali í máli og myndum, hlustað á hvalasögu og farið á hvalbak! Valur hvalur verður í boði vikuna 5.-9. maí og 13.-16. maí. Panta þarf tíma í síma 570 0450

Þriðjudagurinn 6. maí. HLÝNUN ELLIÐAVATNS
mynd155.jpgFyrirlestur kl. 17:00 í Kórnum, fundarherbergi Safnahússins, um rannsóknir Náttúrufræðistofunnar og Veiðimálastofnunar í Elliðavatni. Haraldur R. Ingvason, sérfræðingur á Náttúrufræðistofunni, greinir frá áhugaverðum rannsóknaniðurstöðum á vatnshita í Elliðavatni og hugsanlegum áhrifum á laxfiska. 

Miðvikudagurinn 7. maí. ÞRÍHNÚKAGÍGUR – Nýr ferðamöguleiki? Fyrirlestur kl. 17:00 í Kórnum, fundarherbergi Safnahússins, um verkefnið „Frumathugun á aðgengi Þríhnúkagígs.“ Einar K. Stefánsson, verkfræðingur hjá VSÓ-ráðgjöf, fjallar um verkstöðu og næstu skref í verkefninu sem snýst um fýsileika þess að nýta Þríhnúkagíg til ferðamennsku. Um þetta áhugaverða mélefni má lesa nánar á heimasíðu VSÓ-ráðgjafar.

Föstudagurinn 9. maí. FUGLINN Í FJÖRUNNI Fuglaskoðun kl. 16:00 á Kópavogsleiru. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofu verða til taks með sjónauka. Mæting kl. 16:00 fyrir neðan Líknardeild Landspítalans (Þinghól). Stórstreymt er og háfjara kl. 15:07.