Íslenski safnadagurinn sunnudaginn 13. júlí

29. júlí 2008

mynd159.jpgÍslenski safnadagurinn í ár verður haldinn sunnudaginn 13. júlí næstkomandi. Sýningasalir Náttúrufræðistofunnar verða þá opnir eins og venja er á sunnudögum milli kl. 13 og 17 og aðgangur er sem fyrr ókeypis. Boðið verður upp á sérstaka leiðsögn um safnið og farið í plöntuskoðun á Borgarholtið.

Á íslenska safnadeginum verður boðið upp á eftirfarandi leiðsögn á Náttúrufræðistofunni.

Kl. 14:00. Norskur þorskakór! Olga Bergmann listamaður veitir leiðsögn um listasýninguna „Aðlögun“ sem hún og Anna Hallin hafa sett upp í Náttúrufræðistofunni.

Kl. 15:00. Krabbar og kúluskítur. Gengið með Hilmari J. Malmquist forstöðumanni um sýningarsali og fræðst um sýningarsafnið og rannsóknir Náttúrufræðistofunnar. Kynning á hinum einstaka kúluskít og sýnt myndband af Mývatnsbotni með kúluskítsflákum.

Kl. 16:00. Náttúruvættið Borgarholt. Plöntuskoðun á Borgarholti undir leiðsögn Þóru Hrafnsdóttur. Fræðst um villtan gróður á holtinu sem vart á sér hliðstæðu í miðju þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Íslenski safnadagurinn er haldinn annan sunnudag í júlí ár hvert. Markmiðið er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar á upplýsingum um hin sameiginlegu verðmæti þjóðarinnar. Safnaráð sér um samræmda kynningu á dagskrá Íslenska safnadagsins og verður hún auglýst sameiginlega af ýmsum söfnum landsins í Morgunblaðinu laugardaginn 12. júlí.