Grænt rykmý í Reykjavík!

10. september 2008

mynd162.jpgUndanfarið hefur töluvert borið á fagurgrænum, grannvöxnum flugum utan á húsveggjum í mið- og vesturbæ Reykjavíkur. Þarna eru á ferð rykmý (Chironomidae) af ættkvíslinni Chironomus. Að öllum líkindum eiga flugurnar rætur að rekja til Reykjavíkurtjarnar og eða Vatnsmýrar. Tegundin sem um ræðir hefur ekki hlotið íslenskt heiti en skyld tegund er stóra toppflugan Chironomus islandicus, sem finnst í stöðuvötnum víða á landinu.

Á myndinni hér að neðan til vinstri sést kvenfluga græna rykmýsins sem hefur verið svo áberandi í Reykjavík að undanförnu. Til hægri á myndinni er meðalstór karlfluga annarrar tegundar. Karlflugur rykmýs eru auðþekktar á fálmurunum sem eru eins og fjaðrakústar út úr hausnum.

mynd163.jpg

Líkt og hjá flestum skordýrum er flugtími rykmýs mjög afmarkaður, þ.e.a.s. að fullorðnar flugur hverrar tegundar eru á sveimi í aðeins fáeina daga eða viku til tvær á tilteknum árstíma. Á þeim tíma mynda karlflugurnar oft þétta og áberandi sveima svo skiptir tugþúsundum flugna. Mest eru þetta karlflugur í makaleit. Mergð flugna getur orðið svo mikil að sveimarnir líkjast rykmekki eða reyk og er nafn flugnanna líklega dregið af því.

Rykmý er vatnaskordýr og einn algengasti hópur hryggleysingja í íslensku ferskvatni. Í grunnum vötnum gegnir rykmý oft lykilhlutverki í vistkerfinu, jafnt sem fæða fyrir silung og endur, og sem mikilvirkur áhrifavaldur í flutningi á efnum og orku milli botnsetsins og vatnsins fyrir ofan. Hið síðastnefnda er vel þekkt í Mývatni. Lífsferill rykmýs er í grófum dráttum á þá leið að eftir að kynin hafa makast í sveimunum verpir kvenflugan eggjum í vatn. Úr eggjunum klekjast lirfur sem éta þörunga og grot af botninum. Lirfurnar hafa hamskipti nokkrum sinnum áður en þær púpast. Úr púpunni klekst fullþroskuð fluga sem flýgur að landi og makast. Á myndinni hér að neðan sjást þrjú þroskastig stóru toppflugunnar.

mynd164.jpg

Á Íslandi eru þekktar 80 tegundir af rykmýi. Rykmýið tilheyrir hópi mýflugna þar sem einnig er að finna bitmý, sveppa- og fiðrildamý, galdraflugur og hrossaflugur. Rykmý bítur ekki og er að öllu skaðlaust.

Til frekari fróðleiks um rykmý á Íslandi má benda á yfirlitsgrein eftir Þóru Hrafnsdóttur sem birtist í ritröðinni Zoology of Iceland. Þóra vinnur að doktorsverkefni um rykmý á Íslandi og er starfsmaður á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Rykmýsheimildin eftir Þóru er: Þóra Hrafnsdóttir. 2005. Chironomidae of Iceland. Diptera 2 (Chironomidae). Vol. III, Part 48b. 169 bls. Einnig má benda á grein eftir Hilmar J. Malmquist: Hilmar J. Malmquist. 2003. Rykmý - mikilvæg smádýr í íslenskri náttúru. Lifandi vísindi. 8: 44-45.

Ljósmyndirnar tók Emil H. Valgeirsson og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi hans.