Flundra í Kópavogslæk

11. september 2008

Náttúrufræðistofunni barst á dögunum flundra (Platichthys flesus) sem veiddist í Kópavogslæk 3. september sl. Flundra er flatfiskur af kolaætt og einskonar nýbúi við Ísland, en hennar varð fyrst vart hér á landi í september 1999 þegar hún veiddist í Ölfusárósi. Kópavogsmeyjarnar Tinna Dofradóttir, Hera Katrín Aradóttir og Emilía Björg Atladóttir veiddu flundruna.

Flundran þeirra Tinnu, Heru Katrínar og Emilíu Bjargar veiddist fyrir ofan tjörnina í Kópavogslæknum. Nokkrum dögum áður höfðu stúlkurnar veitt þrjár flundrur á sama stað en sleppt þeim aftur. 

mynd166.jpg

Flundra er flatfiskur af kolaætt og einskonar nýbúi við Ísland, en hennar varð fyrst vart hér á landi í september 1999 þegar hún veiddist í Ölfusárósi. Síðan hefur hún fundist á nær hverju ári, frá sunnanverðum Austfjörðum og meðfram suður- og vesturströndinni og allt norður í Norðurfjörð á Ströndum (Gunnar Jónsson o.fl. 2001, Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson 2007).

Flundran sem hirt var í Kópavogslæknum var 5–6 cm löng (sjá mynd að neðan). Hinar flundrurnar sem veiddust í læknum voru af svipaðri stærð, þ.e. 5–10 cm langar. Miðað við aldurs- og stærðardreifingu í rannsókn Veiðimálastofnunar á flundrum sem veiddust í Hlíðarvatni í Selvogi (Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson 2007) voru flundrurnar úr Kópavogslæknum á fyrsta ári (0+ ára). Þær hafa m.ö.o. Fæðst í ár og jafnframt er engum blöðum um það að fletta að þær hafa klakist úr hrygningu hér við land. Fullvaxnar flundrur geta orðið allt að 60 cm á lengd.

mynd167.jpg

Heimkynni flundru eru í norðaustanverðu Atlantshafi og hingað hefur hún líklega borist frá Færeyjum. Hún er botnlæg eins og aðrir flatfiskar og í sjó finnst hún frá fjöruborði niður á um 100 m dýpi. Hún sækir bæði í ísalt og ferskt vatn og lifir í árósum ásamt því að ganga upp í ár og læki en slíkt er óvenjulegt á meðal sjávarfiska. Samkvæmt athugun Veiðimálastofnunar á 30 flundrum úr Hlíðarvatni voru vatnabobbar og marflær aðalfæða fiskanna. Einnig átu þeir aðra fiska, m.a. Hornsíli, auk rykmýs- og vorflugulirfa (Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson 2007). Vísbendingar eru um að flundran fjölgi sér mikið núna og breiðist hratt út við landið. Margir hafa af þessu áhyggjur, m.a. Stangveiðimenn vegna hugsanlegrar samkeppni við laxfiska um búsvæði og fæðu. Flundran verður til sýnis í anddyri Náttúrufræðistofunnar næstu daga.

Heimildir: Gunnar Jónsson, Jónbjörn Pálsson og Magnús Jóhannsson. 2001. Ný fisktegund, flundra, Platichthys flesus (Linnaeus, 1758), veiðist á Íslandsmiðum. Náttúrufræðingurinn, 70 (2–3): 83–89.

Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson. 2007. Flundra nýr landnemi á Íslandi: Rannsóknir á flundru (Platichthys flesus) í Hlíðarvatni í Selvogi. Fræðaþing landbúnaðarins 2007: 466–469.