Ekvador í brennidepli

28. september 2008

mynd168.jpgEkvador verður í brennidepli á suður-amerískri menningarhátíð sem Kópavogsbær gengst fyrir og hefst laugardaginn 4. október nk. Fjölbreyttar sýningar verða í Salnum, Gerðarsafni og hér í Safnahúsinu hjá Náttúrufræðistofu og Bókasafni Kópavogs. Um dagskrána í heild má lesa á sérvef um Ekvador menningarhátíðina.

Sýningin Náttúra og menning Ekvador verður í anddyri á jarðhæð Safnahússins og stendur yfir 4. október–16. nóvember 2008. Efniviðurinn er tileinkaður náttúru Galapagos og menningu frumbyggja á meginlandi Ekvador. Meðal annars verða til sýnis skildir af risaskjaldbökum, þeim stærstu sinnar tegundar á jörðinni, sem aðeins finnast á Galapagoseyjum. Boðið verður upp á skjásýningu á náttúrulífsmyndum frá Galapagoseyjum eftir þýsk-ekvadorska ljósmyndarann Klaus N. Haussmann. Þá verður til sýnis afar fágætur og sérstæður gripur frá Ekvador sem fáum hefur gefist færi á að komast í tæri við, en það er tzantza, þurrkað mannshöfuð! Að auki gefur að líta ýmis tæki og tól sem frumbyggjar Ekvador nota.

mynd169.jpg

Ekvador–Galapagos: Náttúru, nýting, menning Fræðslukvöld í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, fimmtudag 9. október kl. 20. Fimmtudagskvöldið 9. október verður boðið upp á kynningu og fræðslu í Salnum þar sem fjallað verður í máli og myndum um náttúru og menningu Ekvador. Áhersla verður lögð á málefni sem tengjast ferðamennsku. Hér gefst kjörið tækifæri til að kynnast þessu töfrandi landi við miðbaug, einstæðum náttúruminjum og forvitnilegum ferðaslóðum. Framsögumenn eru sérfróðir hver á sínu sviði og munu gera grein fyrir jarðfræði, lífríki og ferðaþjónustu jafnt í Ekvador sem á Galapagoseyjum.

Dagskrá kvöldsins:

Kl. 20:00 Oswaldo Munoz, ræðismaður Íslands í Ekvador. Ecotourism and national parks in Ecuador – Conservation as if humans mattered (Vistvæn ferðamennska og þjóðgarðar í Ekvador – sambýli manns og náttúru).

Kl. 20:20 Ari Trausti Guðmundsson, rithöfundur og jarðeðlisfræðingur. Galapagos og Ekvador: Suður-Ameríka í hnotskurn.

Kl. 20:40 Hafdís Hanna Ægisdóttir, líffræðingur. Galapagoseyjar – undraveröld á krossgötum.

Kl. 21:00 Heimildarmynd eftir Þorvarð Björgúlfsson, Ara Trausta Guðmundsson og Konráð Gylfason. Ævintýralandið Ekvador – náttúruparadísin Galapagos. Fundarstjóri verður Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs. Risaskjaldbökur Risaskjaldbökurnar á Galapagoseyjum eru stærstu núlifandi landskjaldbökur og verða allt að 1,5 m langar og rúm 300 kg. Þær eru afar langlífar og er meðalævilengdin um 100 ár, en þær elstu verða allt að 200 ára. Kynþroska verða þær fyrst um fimmtugt! Þær eru hægfara jurtaætur og nærast á kaktusávöxtum og ýmsum lággróðri.

mynd170.jpg

Áður fyrr lifðu skjaldbökurnar á öllum helstu eyjum klasans og þróuðust þar í tímans rás þannig að til urðu 12-14 undirtegundir býsna ólíkar að stærð, lögun og lífsháttum. Þessi fjölbreytileiki skjaldbakanna vakti athygli Charles Darwins og átti sinn þátt í að hann setti síðar fram þróunarkenninguna. Risaskjaldbökurnar hafa mátt þola mikla rányrkju og ýmis vandamál hafa steðjað að þeim vegna innfluttra dýra. Nokkrar undirtegundirnar eru útdauðar en aðrar eru í hættu. Þrátt fyrir að Galapagoseyjar séu á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna yfir einstök náttúrusvæði og njóti verndar sem þjóðgarður, hefur nýlega verið lýst yfir að þær séu í hættu vegna álags af völdum manna.

Tzantza Tzantza er heiti á flókinni og þýðingarmikilli helgiathöfn sem Shuar-frumbyggjar frá Ekvador í frumskógi Amazón stunduðu áður fyrr. Athöfnin fólst í því að taka höfuð mikilsmetinna bandamanna jafnt sem fjandmanna og smækka þau og meðhöndla eftir kúnstarinnar reglum undir leiðsögn töfralæknis (wea eða shaman) og fulltingi þriggja aðstoðarmanna (tsánkram). Sá siður Shuar-fólks að höggva af höfuð manna virðist hafa gegnt tvennum tilgangi. Annars vegar trúðu Shuar-menn að sérhver sigur á óvinum væri ófullkominn nema til kæmi blóðhefnd. Stríðsmönnum bar því skylda til að snúa heim úr bardaga með afhoggið óvinahöfuð sem sigurtákn, enda yrði það til mikillar hagsældar og gæfu fyrir bæði stríðsmanninn og samfélag hans. Hins vegar var það einnig trú þeirra að með því að halda eftir höfði mikilsmetinna manna væri þeim í senn sýnd virðing og návist þeirra varðveitt.

Samkvæmt trúfræði Shuar-fólksins býr mannfólkið yfir þremur ólíkum sálum eða öndum; neka sem er meðfæddur náttúruandi, arutam sem er áunninn andi og þroskast allt æviskeiðið, og muisac sem hefur aðsetur í höfðinu. Það er síðastnefndi andinn, muisac, sem tengist tzantza helgiathöfninni. Með tzantza er muisac-andinn fangaður inni í höfðinu og hægt að kalla hann fram til góðs eða ills. Meðhöndlun höfuðsins var langt og slungið ferli sem fylgt var eftir með söngvum og taktföstum trumbuslætti. Höfuðbein og líffæri voru fjarlægð úr afhoggnu höfðinu, hausinn soðinn vel og lengi í jurtaseyði, hann þurrkaður og hertur að innan með heitum steinum og sandi og að lokum saumað fyrir augu og munn og húðin svert með litarefni. Þetta var gert til þess að varðveita muisac–anda viðkomandi og koma í veg fyrir að hann slyppi út. Höfuðið á sýningunni er eign Inti-Ñan safnsins í Quito, höfuðborg Ekvador. Það var Shuar-fólk sem færði safninu hausinn að gjöf árið 1925. Hausinn kom í leitirnar á Chirapas-búsvæði Shuar-fólksins við bakka Pastaza- og Tiputini-ánna, djúpt inni í frumskógi Amazón. Af höfuðdjásninu að dæma tilheyrði höfuðið síðhærðum Shuar-öldungi, líklega töfralækni og leiðtoga (shaman).