Nýrnaveiki og loftslagshlýnun

02. desember 2008

mynd173.jpgNýlega var greint frá því í fjölmiðlum að PKD−nýrnaveiki hefði greinst í fiski í fyrsta skipti hér á landi. Um fundinn má einnig lesa á heimasíðu Veiðimálastofnunar. Um var að ræða bleikju úr Elliðavatni og frumdýrið Tetracapsuloides bryosalmonae sem veldur sýkingunni. Eðlilega vakna margar spurningar í kjölfar þessa fundar. Þar á meðal af hverju PKD−sýking skjóti fyrst upp kollinum nú. Enda þótt fullsnemmt sé að staðhæfa nokkuð í þessum efnum er ekki útilokað að hlýnun Elliðavatns eigi hér sök að máli. Myndin hér t.h. er af þráðmosungi (Fredericella sultana), sem er millihýsill fyrir sníkjudýrið.

Nýlega var greint frá því í fjölmiðlum að svokölluð PKD−nýrnaveiki (Proliferative Kidney Disease) hefði greinst í fiski í fyrsta skipti hér á landi. Um var að ræða bleikju úr Elliðavatni sem aflað var í árlegri vöktun Veiðimálastofnunar í október síðastliðnum. Árni Kristmundsson frá Rannsóknadeild fisksjúkdóma á Keldum greindi sjúkdóminn. Um fundinn má einnig lesa á heimasíðu Veiðimálastofnunar. Sjúkdómsvaldur þessarar nýrnaveiki er frumdýrið Tetracapsuloides bryosalmonae, en þetta sníkjudýr hefur um langt árabil valdið allþungum búsifjum í laxfiskaeldi í Evrópu og Norður-Ameríku (Hedrick o.fl. 1993).

Millihýsill fyrir PKD er að öllum líkindum mosadýrið Fredericella sultana, sem Helgi Hallgrímsson líffræðingur nefnir þráðmosung og að hans sögn ku vera ein algengasta mosadýrategundin á Íslandi. Þar sem umrætt sníkjudýr hefur ekki áður verið greint hér á landi og rannsóknir á byrjunarstigi er lítið hægt að fjölyrða um málið að svo komnu. Fjölmargar spurningar vakna eðlilega um sjúkdóminn og þar á meðal af hverju honum skjóti fyrst upp kollinum nú. Í kjölfarið liggur beinast við að spyrja hvort eitthvað í lífsögu og stofngerð bleikjunnar og eða í umhverfi fiskanna í Elliðavatni hafi breyst undanfarið sem kann að skýra tilvist sjúkdómsins. Erlendis er vel þekkt úr laxfiskaeldi að sjúkdómurinn tengist vatnshita en hástig sýkingar og mest afföll verða fyrst og fremst síðsumars þegar vatnshiti nær hámarki, iðulega á bilinu 15−18 °C (Hedrick o.fl. 1993, Tops o.fl. 2006). Gjarnan er miðað við að neðri hitastigsmörk á PKD−faraldri séu við 15 °C. Í nýlegri rannsókn á villtum laxaseiðum í Åelva ánni í Noregi eru líkur leiddar að því að hár vatnshiti og óhagstæð vatnshitaskilyrði, sem rakin voru til stíflugerðar og vatnsmiðlunar, hafi átt þátt í PKD−faraldri sem herjaði á seiðin (Sterud o.fl. 2007). Norðmennirnir töldu jafnframt að PKD−faraldurinn í Åelva ánni gæti verið dæmi um aukna sjúkdómahættu meðal norðlægra fisktegunda vegna loftslagshlýnunar. Því hefur einmitt verið spáð að útbreiðsla og umfang á PKD−faraldri muni aukast vegna fjölgunar á mosadýrahýslum í tengslum við hlýnandi veðurfar (Tops o.fl. 2006). Hvernig horfa málin við í Elliðavatni? Umtalsverðar rannsóknir hafa verið stundaðar á lífríki Elliðavatns og Elliðaánna og taka athuganir til efna− og eðlisþátta, smádýra og fiska. Að rannsóknunum hafa komið ýmsir aðilar, þ. á m. Veiðimálastofnun, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Jarðvísindastofnun Háskólans og Líffræðistofnun Háskólans.

mynd174.jpg

Í nýlegri samantekt á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs og Veiðimálastofnunar, þar sem m.a. er byggt á langtímagögnum um silungsafla, kemur fram að bleikjustofninn í Elliðavatni hefur snarminnkað á undanförnum 20−25 árum og er nú ekki svipur hjá sjón. Á áttunda áratugnum og framan af þeim níunda var hlutdeild bleikju í silungsafla 55−85%, en á sl. fimm árum eða svo hefur hlutdeildin ekki verið nema 5−15%. Urriðastofninn hefur hins vegar staðið í stað á heildina litið.

mynd175a.jpg

mynd175b.jpg

Samtímis fækkun bleikjunnar hefur Elliðavatn hlýnað umtalsvert, mest snemma vors og síðsumars. Meðaltalsaukning í apríl á árabilinu 1987−2006 er 2,7 °C og 2,3 ºC í ágúst. Á allra síðustu árum hefur vatnshitinn verið um og yfir 14 °C svo vikum skiptir og hangið í 18–21 ºC svo dögum skiptir. Svo hár vatnshiti er vel yfir kjörhita bleikju til vaxtar og viðgangs, en bæði urriði og lax þola þennan hita mun betur.

mynd176.jpg

Hlýnun Elliðavatns stafar af hlýnandi veðurfari á höfuðborgarsvæðinu, en lofthiti í Reykjavík og á vatnasviði Elliðavatns hefur hækkað marktækt sl. 25 ár, frá sumrinu kalda árið 1983. Ekkert bendir til þess að breytingar hafi átt sér stað á undanförnum tveimur til þremur áratugum í vaxtarþáttum bleikjustofnsins eða aldurssamsetningu. Gögn um fæðu bleikjunnar benda heldur ekki til þess að nein tengsl séu milli fæðuvals og fækkunar í stofninum. Sama gildir um upplýsingar sem varða fæðudýr bleikjunnar. Þau gögn, þótt fátækleg séu, benda ekki til neinna breytinga eða ástands sem hægt er að tengja við hrun bleikjunnar. Flest bendir því til að fækkunina í bleikjustofni Elliðavatns megi rekja a.m.k. að hluta til of hás vatnshita. Neikvæð áhrif óhagstæðs vatnshita á bleikju geta m.a. falist í vaxtarrýrnun, lélegri þroskun hrogna, minni sjúkdómsvörnum og auknum líkum á dauðsföllum. Ekki er hægt að útiloka að önnur óhagstæð umhverfisskilyrði ásamt háum vatnshita kunni að skýra fækkun bleikjunnar. Í því sambandi hefur verið bent á óvenju basískt ástand vatnsins, þ.e. hve hátt sýrustig vatnsins er að jafnaði (≥ 7,5 pH), og hve styrkur áls hefur mælst hár. Frekari rannsóknir þarf til að varpa skýrara ljósi á hugsanlegar orsakir að baki bágu ástandi bleikjunnar í Elliðavatni.

Heimildir og ítarefni:

Hedrick, R.P., MacConnell, E. og de Kinkelin, P. 1993. Proliferative kidney disease of salmonid fish. Annual Review of Fish Diseases, 3: 277−290.

Sterud, E., Forseth, T. Ugedal, O., Poppe, T.T., Jørgensen, A., Bruheim, T., Fjeldstad, H.-P. og Atle Mo, T. 2007. Severe mortality in wild Atlantic salmon Salmo salar due to proliferative kidney disease (PKD) caused by Tetracapsuloides bryosalmonae(Myxozoa). Dis. Aquat. Org. 77: 191–198.

Tops, S., Lockwood, W. og Okamura, B. 2006. Temperature-driven proliferation of Tetracapsuloides bryosalmonae in bryozoan hosts portends salmonid decline. Dis. Aquat. Org. 70:227–236.

Helgi Hallgrímsson. 1990. Veröldin í vatninu. 2. Útg. Námsgagnastofnun, Reykjavík. 231 bls.

H. J. Malmquist, Þ. Antonsson, H.R. Ingvason, F. Ingimarsson and F. Árnason. 2008. Salmonid fish and warming of shallow Lake Elliðavatn in SW-Iceland. Verh. Internat. Verein. Limnol. 30 (handrit, saþykkt til birtingar, 12 bls., 2 töflur og 3 myndir).

Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson og Haraldur Rafn Ingvason. 2004. Vöktun á lífríki Elliðavatns: Forkönnun og rannsóknatillögur. Greinargerð unnin fyrir Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Fjölrit nr. 1-04. 43 bls. Fyrirlestur (ppt) á ensku um hlýnun Elliðavatns og áhrif á bleikju.