Kópavogsdagar 9.-15. maí 2009

06. maí 2009

mynd183.jpgKópavogsdagar verða settir laugardaginn 9. maí næstkomandi og standa yfir í viku fram til föstudagsins 15. maí. Þetta er í áttunda skipti sem Kópavogsbær stendur að þessari menningarhátíð og nú sem endranær er boðið upp á fjölbreytta dagskrá við allra hæfi. Náttúrufræðistofa Kópavogs lætur ekki sitt eftir liggja á Kópavogsdögum og býður upp á viðburði af ýmsu tagi.

Dagskrá Kópavogsdaga á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs:

Laugardagurinn 9. maí. MINJAR, náttúra í myndlist og myndlist í náttúru Sýning á verkum 18 listamanna úr Kópavogi sem flest eru unnin sérstaklega fyrir húsakynni Náttúrufræðistofu Kópavogs. Margvísleg tengsl náttúru og myndlistar eru hér í brennipunkti og þar á meðal vangaveltur um söfn almennt og hvaða hlutverki þau gegna. Hvað leitast söfn við að varðveita og kynna fyrir komandi kynslóðum? Hvaða sögu inniheldur það sem gestum er sýnt? Eftir hvaða kerfi eru munirnir flokkaðir og á hvaða hátt eru þeir settir fram til sýnis? Þeir sem eiga verk á sýningunni eru: Anna Líndal, Bjarki Bragason, Eygló Harðardóttir, Harpa Árnadóttir, Harpa Dögg Kjartansdóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Helga Arnalds, Hildigunnur Birgisdóttir, Hugsteypan, Hildur Bjarnadóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Jeannette Castioni, Magnea Ásmundsdóttir, Pétur Thomsen, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Sigurrós Svava Ólafsdóttir og Unnar Örn Auðarson Jónsson. Sýningarstjórar eru Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir. Einar Tómasson, varaformaður lista- og menningarráðs, opnar sýninguna laugardaginn 9. maí. kl. 15:30. Athugið að sýningin stendur til 31. ágúst.

Sunnudagurinn 10. maí. ÞRÍHNÚKAGÍGUR – Náttúrugersemi í Kópavogi Gönguferð á Þríhnúkagíg í Bláfjöllum í fylgd Árna Hjartarsonar, jarðfræðings hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR). 
Lagt verður af stað í samfloti einkabíla frá Náttúrufræðistofunni kl. 13:00 og safnast saman kl. 13:30 við bílastæði (útskot) á Bláfjallavegi skammt norðan við Kóngsfell. Ráðgert er að ganga yfir Kóngsfellshraun, sem rann yfir svæðið um árið 950 og stefna fyrst að fallegum gjallgíg sem kallast Eyra og liggur utan hlíðinni vestur af Kóngsfelli. Þaðan er gengið upp með fjallsbrúninni að Þríhnúkagíg og Þríhnúkahelli þar sem aðalviðkomustaðurinn er. Ef vel viðrar verður farið af Þríhnúkagíg á Miðhnúk og Vesturhnúk og þar með eru allir Þríhnúkarnir gengnir. Óvíða mun betri útsýn yfir höfuðborgarsvæðið, Hengil og Bláfjöll. Á bakaleiðinni verður farið niður með fallegri hraunrás í Þríhnúkahrauni og síðan svipaða leið um Eyra og að bílastæðinu á ný. Alls er hringurinn 6-7 km langur og má gera má ráð fyrir þriggja klst. ferðalagi. Þríhnúkagígur er gíghellir af fágætri gerð, annar stærsti á jörðinni, og umhverfi hans er stórfenglegt. Hugmyndir hafa verið uppi um að nýta hellinn í tengslum við ferðaiðnað og hefur verkfræðistofan VSÓ-ráðgjafar haft veg og vanda af allumfangsmikilli athugun í því sambandi. Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur í tvígang áður fjallað um Þríhnúkagíg. Fyrst með sýningu í anddyri safnahússins sumarið 2004 og með útgáfu á bæklingi. Á Kópavogsdögum í fyrra var einnig fjallað um málið, en þá hélt Einar K. Stefánsson, verkfræðingur hjá VSÓ-ráðgjöf, fyrirlestur og farið var í gönguferð á Þríhnúkagíg.

Sunnudagurinn 10. maí. LEYNDARDÓMAR ÞINGHÓLS Í KÓPAVOGI Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur á Fornleifastofnun Íslands, flytur erindi um þingstaðinn Þinghól í Kópavogi. Erindið hefst kl. 14:00 og er flutt í Kórnum, fjölnotasal safnahússins. Að erindinu loknu er ráðgerð skoðunarferð á Þinghól. Þinghóll í Kópavogi eru friðlýstar fornminjar en Kópavogsþingstaðurinn var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir og vafalítið hefur nálægðin við Bessastaði ráðið þar miklu um. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Elsu heimildir um þing í Kópavogi eru frá 1523 en árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi. Ekki hefur farið mikið fyrir fornleifarannsóknum á Þinghóli. Síðast fóru þar fram rannsóknir á árunum 1973-1976 í umsjón Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings. En auk þinghúsrústa hafa fundist þar mannvistarleifar mun eldri og af allt öðru tagi en sem tengjast þinghaldi. Hugsanlega er um að ræða leifar mannvista allt aftur til landnáms á 9. öld. Um þetta og ýmislegt fleira áhugavert mun Adolf Friðriksson fornleifafræðingur fjalla í erindinu. 

Mánudagurinn 11. maí SNORRI SELUR Ævintýri og fróðleikur í máli og myndum fyrir börn á leikskólaaldri í safnahúsinu í umsjón starfsfólks Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafns. Um er að ræða fjörugt fræðsluerindi um seli og sitthvað fleira í sjávarlífríkinu og hlustað á söguna um Snorra sel Snorri selur verður í boði kl. 10:00 vikuna 11.-15. maí og 18.-22. maí. Panta þarf tíma í síma 570 0450.

Þriðjudagurinn 12. maí LÍFRÍKI FOSSVOGS OG SKIPULAG Á KÁRSNESI Haraldur Rafn Ingvason, líffræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs, flytur erindi í Kórnum, fjölnotasal safnahússins, um rannsóknir náttúrufræðistofunnar á lífríki í Fossvogi í tengslum við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á Kársnesi. Erindið hefst kl. 17:15. Rannsóknirnar hófust vorið 2008 og hefur verið fylgst reglulega með fuglalífi í voginum á 3-4 vikna fresti. Auk athugana á fuglum verður smádýralíf í fjöru og úti á botni Fossvogs kannað í sumar. Rannsóknirnar eru gerðar m.a. í því skyni að varpa ljósi á lífríki Fossvogs og hugsanlegar breytingar sem kunna að verða á því ef ráðist verður í landfyllingar í utanverðum voginum.

mynd186.jpgFimmtudagurinn 14. maí HVALIR OG SITTHVAÐ FLEIRA AF SJÁVARKYNI Í KÓPAVOGI Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, flytur erindi í Kórnum, fjölnotasal safnahússins, um hvali og sitthvað fleira af sjávarkyni sem tengist Kópavogi. Erindið hefst kl. 17:15. Líklega dettur fáum fyrst í hug Kópavogur þegar hvalveiðar eru nefndar. Þó er gerður út frá Kópavogi einn af örfáum hrefnuveiðibátum í landinu. Þá muna e.t.v. einhverjir eftir heilsíðuauglýsingum í dagblöðum fyrr á árinu þar sem Kópavogsbær í samfloti við nokkur smærri sveitarfélög og ýmsa hagsmunaaðila hvatti stjórnvöld til að hefja hvalveiðar. Ekki stendur til að fjalla mikið um framangreind atriði í erindinu. Enda kemur á daginn að af nógu öðru efni og áhugaverðara er að taka tengt hvölum í Kópavogi, enda þótt það efni tilheyri liðinni tíð og þar af sumt sem hernaðarleynd hefur hvílt yfir þar til fyrir skömmu.