Svölur í Fossvogi

15. maí 2009

Glöggur Kópavogsbúi við Sæbólsbraut hafði samband við Náttúrufræðistofu Kópavogs þann 14. maí og sagðist í tvígang hafa séð svölur á flugi fyrir utan gluggann hjá sér. Starfsmenn náttúrufræðistofunnar fóru á vettvang og komu einnig auga á fuglana á hringsóli í botni Fossvogs. Um var að ræða þrjár bæjarsvölur.

mynd188.jpgUndanfarna daga hafa náttúrufræðistofunni einnig borist fregnir af svölum á Arnarnesi, í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Líklegt er um að ræða fugla sem borist hafa frá Evrópu með stífum, hlýum vindum sem leikið hafa um landið undanfarna daga.

Svölur eru svartar á baki en ljósar á kvið og á neðanverðum vængjum. Á bæjarsvölum er einnig ljós blettur á baki - framan við stél (gump) og stél þeirra er sílt. Á landsvölum, sem einnig sjást oft hér á landi, er stélið mjög djúpsílt eða klofið sökum lengdar ystu stélfjaðranna og svipar nokkuð til kríu. Vængir eru oddmjóir og er fluglag hjá svölum ólíkt fluglagi flestra annarra smáfugla sem sjást hér á landi, þar sem þær eru mjög hraðfleygar en jafnframt flöktandi á flugi.

Þær lifa aðallega á skordýrum sem þær veiða á flugi og er talið að þeir lífshættir m.a. geri þeim erfitt um vik að nema hér land. Svölur eru algengir flækingar hér á landi og hafa nokkrum sinnum reynt varp.

Ekki náðust myndir af svölunun í Fossvogi og raunar eru svölur á flugi afskaplega erfitt viðfangsefni til myndatöku. Meðfylgjandi mynd er af uppstoppuðu eintaki í eigu náttúrufræðistofunnar. Á vefsvæðinu www.fuglar.is má meðal annars finna myndir af land- og bæjarsvölum.