Urrari í sjóbúri

28. september 2009

Nýlega barst Náttúrufræðistofu Kópavogs einkar fallegur og sérstæður fiskur og var honum strax komið fyrir í sjóbúri í sýningarsal stofunnar. Um er að ræða urrara, en nafnið er til komið af því að hann getur með aðstoð sundmagans gefið frá sér urrandi hljóð. Þá eru þrír neðstu geislar eyrugganna ummyndaðir í n.k. ganglimi.

Urrari (Eutrigla gurnardus) er botnfiskur og finnst oftast á 20–150 metra dýpi. Hann lifir meðfram ströndum og á grunnsævi í Evrópu og N-Afríku. Hér við land lifir hann við suður- og vesturströndina allt til Breiðafjarðar. Urrarinn veiddist á línu utarlega í Faxaflóa. Þar sem hann var lítið sár var ákveðið að reyna að koma honum lifandi til greiningar og var töluvert fyrir því haft að koma honum á Náttúrufræðistofuna. Kunnum við Guðmundi Geirdal og áhöfn hans á Gísla KÓ 10 hinar bestu þakkir fyrir.

Á myndinni hér að neðan má sjá nokkur af helstu einkennum fisksins, m.a. hina vígalegu broddgeisla í bakuggum og einnig hvernig fiskurinn "stendur" á hinum ummynduðu eyruggageislum.

mynd195.jpg