Líffræðiráðstefnan 2009

10. nóvember 2009

Dagana 6. og 7. nóvember sl. fór fram ráðstefna á vegum Líffræðifélags Íslands og Líffræðistofnunar háskólans. Með ráðstefnunni var verið að fagna 30 ára afmæli Líffræðifélagsins og jafnframt 35 ára afmæli Líffræðistofnunar.

mynd196.jpg

Ráðstefnan fór fram í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar og í Norræna húsinu. Starfsfólk Náttúrufræðistofu Kópavogs var að sjálfsögðu á meðal þátttakenda og hélt fjögur erindi þar sem kynnt voru nemendaverkefni og niðurstöður rannsókna sem unnið hefur verið að á Náttúrufræðistofunni.

Ráðstefnan var hin glæsilegasta og voru alls kynnt um 220 framlög í formi erinda og veggspjalda. Á heimasíðu ráðstefnunnar má m.a. nálgast útdrætti allra þessara framlaga. Þar kemur einnig fram að um 390 manns hafi komið að þeim rannsóknum sem kynntar voru. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 250, en til gamans má geta þess að ríflega 1000 manns hafa lokið grunnnámi í líffræði hér á landi.

Eins og áður segir var starfsfólk Náttúrufræðistofu Kópavogs á meðal þátttakenda á ráðstefnunni og hélt fjögur erindi þar sem kynntar voru rannsóknaniðurstöður og nemendaverkefni sem unnið er að á Náttúrufræðistofunni. Þrjú þeirra áttu það sammerkt að umfjöllunarefnið var langtímavöktun í stöðuvötnum, en það fjórða fjallaði um svipfarsrannsóknir á hornsílum. Hér að neðan má nálgast erindin á PDF formi.

Hlýnun Elliðavatns og fækkun bleikju í vatninu. Hilmar J. Malmquist fjallaði um hækkandi vatnshita í Elliðavatni, orsakir þessarar hækkunar og fækkun bleikju, sem hefur haldist nokkuð í hendur við hinn hækkandi hita.

Vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns. Finnur Ingimarsson fjallaði um vöktunarverkefni sem unnið er að í Þingvallavatni. Þar er fylgst með vatnshita, súrefnismettun og leiðni, ásamt dýra- og þörungasvifi, frá yfirborði og allt niður á 50m dýpi.

Vöktun eðlisþátta í vötnum á höfuðborgarsvæðinu. Haraldur R. Ingvason fjallaði um vöktun á vatnshita, súrefnismettun, leiðni og blaðgrænu-a í nokkrum vötnum á höfuðborgarsvæðinu.

Hornsíli; ekki bara lítill fiskur með gadda. Rakel Júlía Sigursteinsdóttir (M.S. Nemi) kynnti nokkrar niðurstöður úr rannsóknarverkefni sínu sem lítur að fjölbreytileika í svipgerð hornsíla í íslenskum vötnum.