Jólahátíð í Kópavogi

26. nóvember 2009

Laugardaginn 28. nóvember verður haldin jólahátíð í Kópavogi á Hálsatorgi og í nærliggjandi menningarstofnunum. Kópavogsbúum og öðrum gestum er meðal annars boðið að taka þátt í laufabrauðsbakstri, hlusta á jólasöngva, fræðast um jólaköttinn og tendra á jólaljósunum á vinarbæjarjólatré Kópavogsbúa. Í Safnahúsinu bjóða Bókasafnið og Náttúrufræðistofan upp á vinsæla ævintýrið um Jólaköttinn fyrir 4-6 ára krakka. 

Undanfarin ár hefur myndast sannkölluð fjölskyldustemning þennan dag enda höfðar dagskráin til allra aldurshópa. Bæjarbúar og raunar landsmenn allir, eru hvattir til að koma og njóta jólahátíðar Kópavogsbæjar.