Ný tegund fyrir landið???

20. janúar 2010

Á dögunum voru starfsmenn Náttúrufræðistofunnar við reglubundna sýnatöku og mælingar í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Tjörnin var lögð 10 – 15 cm þykkum ís og vatnshiti undir honum var um 0,5° C. Það kom því nokkuð á óvart að finna stórvaxnar vatnaflær (2,5–3 mm) á sundi í vatnssýni sem tekið hafði verið til blaðgrænumælinga, enda á vatnalíf af þessu tagi almennt að vera í dvala að vetri til, samkvæmt bókinni.

mynd203.jpg

 Í kjölfarið var málið kannað betur og reyndist þá vera mikil mergð af þessum dýrum í tjörninni. Dýrin voru þess utan ókunnugleg í útliti og lék grunur á að um væri að ræða nýja tegund fyrir landið! Sú mun þó tæpast vera raunin.

Þetta mál á að vísu nokkra forsögu. Árið 2008 gerði Náttúrufræðistofan rannsókn á lífríki Bakkatjarnar fyrir Seltjarnarnesbæ. Í þeirri rannsókn fundust m.a. framandleg söðulhýði í nokkru magni, en söðulhýði er þolhjúpur sem umlykur dvalaregg vatnaflóa. Þrátt fyrir marg endurtekna sýnatöku fundust hins vegar engar vatnaflær sem gátu átt þessi söðulhýði. Einkennandi fyrir þessi tilteknu söðulhýði er annars vegar stærð þeirra (um 2 mm, sem er stórt í heimi vatnaflóa) og hins vegar langir og grannir sporar sem ganga fram úr þeim (sjá mynd) og eru alþaktir örsmáum afturvísandi göddum.

mynd201.jpg

Ekki þarf að orðlengja það að hér voru komnar vatnaflærnar sem hin framandlegu söðulhýði tilheyrðu. Mest veiddist af kvendýrum og voru sum þeirra með söðulhýði, eins og dýrið á myndinni hér að neðan og voru söðulhýðin á mismunandi þroskastigum. Einnig fundust nokkur karldýr. Í fyrstu vaknaði rökstuddur grunur um að tegundin væri ný fyrir landið, en nánari greining bendir til að um sé að ræða náskylda og nauðalíka tegund „Daphnia atkinsoni“, sem m.a. hefur fundist á Langanesi og í Grímsey - í smá pollum og tjörnum - sem eru mjög sérstök búsvæði, stundum kölluð fuglaböð.

mynd202.jpg

Hvernig stendur svo hinni miklu mergð þessarar tegundar í Bakkatjörn og það á þessum árstíma? Væntanlega er meginskýringin hið mikla fuglalíf við tjörnina, en söðulhýði þessarar tegundar eru eins og áður segir sérlega vel búin til að húkka sér far í bókstaflegri merkingu, t.d. með fuglum. Jafnframt fylgir fuglalífinu mikil ákoma næringarefna, en þrátt fyrir takmarkaða birtu á þessum árstíma var mikill svifþörungagróður í tjörninni. Svo virðist sem þetta þörungasvif sé kjörfóður vatnaflónna, ef marka má magainnihald þeirra. Hins vegar er þörungasvif í Bakkatjörn síst minna að sumarlagi þannig að það skýrir ekki fjarveru þeirra á áðurnefndu rannsóknartímabili árið 2008.

Hér má nálgast skýrsluna um lífríki Bakkatjarnar. GRUNNRANNSÓKN Á LÍFRÍKI BAKKATJARNAR Á SELTJARNARNESI. Unnið fyrir fyrir Umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Mars 2009. 30 bls