Fugl mánaðarins - snjótittlingur

21. janúar 2010

Nú hefur verið tekin upp sú nýbreytni á Náttúrufræðistofu Kópavogs að kynna til sögunnar fugl mánaðarins . Jafnframt verður að finna upplýsingar um viðkomandi fugl hér á heimasíðunni. Ætlunin er að fylgja gömlu mánuðunum og er því fyrsti fuglinn fugl þorramánaðar. Að vonum er um að ræða fugl sem sannarlega tengist kulda, snjó og þolgæði, sjálfan snjótittlinginn.

Snjótittlingur / sólskríkja (Plectrophenax nivalis), Tittlingaætt – Emberizidae

Að mestu staðbundinn heimskautafugl, en sumir kvenfuglar fara til Skotlands að vetri. Kjörlendi er afar fjölbreytt og finnast þeir um allt land, jafnt að vetri sem sumri. Hreiður þeirra er oftast að finna í holum undir steinum eða í mannvirkjum.

Snjótittlingar hópa sig á veturna og flakka á milli staða í ætisleit. Fæðuval snjótittlings er árstíðabundið, skordýr að sumri en fræ og ber að vetri. Snjótittlingur er nefndur sólskríkja á sumrin og er sagður geta sagt til um veðrabrigði þar sem þeir safnast í hópa við bæi 1-3 dögum fyrir stórhríð. Stofnstærð að sumri: 50.000-100.000 pör. Stofnstærð að vetri: 100.000-300.000 fuglar