Eyfirskir fossar í Náttúrufræðistofunni

17. október 2011

Sýningin Eyjafjarðarfossar verður opnuð í anddyri Náttúrufræðistofu Kópavogs laugardaginn 22. október kl. 14. Hjálmar Hjálmarsson forseti bæjarstjórnar Kópavogs opnar sýninguna. Andrea Gylfadóttir og Kjartan Valdemarsson sjá um tónlist. 

Á sýningunni eru ljósmyndir af 42 fossum í eyfirskum vatnsföllum eftir Svavar Alfreð Jónsson, áhugaljósmyndara og prest við Akureyrarkirkju.

Ljósmyndirnar á sýningunni tók Svavar á árunum 2009 til 2011. Fossarnir 42 eru í 25 straumvötnum sem renna í sveitum Eyjafjarðar. Samtals er fallhæð fossanna um 270 metrar og er sá hæsti um 18 metrar og meðalhæðin 6,4 metrar. Aðkoma að sumum fossunum var erfið og í einstaka tilfellum mátti Svavar þakka Guði sínum fyrir að sleppa heilu og höldnu úr hættulegu klungri.

Léttar veitingar verða í boði.

Sýningin stendur til 1. desember 2011.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

20111017130327091945.jpg

Svavar Alfreð Jónsson er fæddur 29. október 1960 á Akureyri. Snemma byrjaði hann að taka ljósmyndir. Fyrsta myndavélin hans var af gerðinni Kodak Instamatic sem hann fékk í fermingargjöf ásamt 24-mynda litfilmu og flasskubbi með fjórum perum. Á menntaskólaárunum tók Svavar þátt í starfi FÁLMA, Félags áhugaljósmyndara í Menntaskólanum á Akureyri. Hann bæði framkallaði og stækkaði myndir og tók þátt í sýningum á vegum félagsins. Samtímis var hann ljósmyndari fyrir vikublaðið Íslending, dagblaðið Vísi og tímaritið Fólk. Um þetta leiti hélt hann einnig ljósmyndasýningu með Erni Inga Gíslasyni, fjöllistamanni. Á þessum árum átti Svavar Konica T4 myndavél, mikinn kostagrip.

Að loknu stúdentsprófi lagði Svavar stund á guðfræði við Háskóla Íslands, Kirchliche Hochschule Bethel í Bielefeld og háskólann í Göttingen í Þýskalandi. Svavar lauk embættisprófi 1986 og framhaldsnám stundaði hann á árunum 1992–1994. Hann varð sóknarprestur í Ólafsfirði 1986 og hefur þjónað Akureyrarkirkju frá 1995. Fyrir nokkrum árum eignaðist Svavar góða stafræna myndavél, Nikon D-60, og var þráðurinn þá tekinn upp á ný við ljósmyndun.

20111017130816602016.jpg

Sýningin Eyjafjarðarfossar er fyrsta verkefni Svavars eftir nokkurt hlé, en að því vann hann á árunum 2009–2011. Ferðafélagi Svavars í fossagöngunum og ráðgjafi um hæð foss og fleira hefur verið Gísli Gunnlaugsson, tæknifræðingur. Svavar hefur sagt að mikið vanti í upplifun fólks af Eyjafirði væru fossarnir þar ekki, eins áberandi hluti og þeir eru af náttúrudásemdum héraðsins. Á sýningunni í Náttúrufræðistofunni gefur að líta 42 fossa í 25 straumvötnum sem renna í sveitum Eyjafjarðar. Samtals er fallhæð fossanna um 270 metrar og er sá hæsti um 18 metrar og meðalhæðin 6,4 metrar. Enginn fossinn kemst í hóp stærstu og kraftmestu fossa landsins. „Þó eru þeir allir afreksfossar, hver með sínu lagi“ eins og Svavar kemst að orði. „Sumir eru háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym. Aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir kasta sér niður þverhnípið með þungum og nötrandi dunum. Allir eru þeir lúsiðnir og enginn að reyna að vera eitthvað annað en hann er.“ Fegurð fossana hefur Svavar fangað á filmu, oft ofan í myrkum giljum og gljúfrum. Aðkoma að sumum fossunum var erfið og í einstaka tilfellum mátti Svavar þakka Guði sínum fyrir að sleppa heilu og höldnu úr hættulegu klungri.

Fossasýningin í Náttúrufræðistofu Kópavogs er þriðja uppsetningin á sýningunni, þó aukin og endurbætt. Fyrsta sýningin var í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju í október 2010 og sú næsta í febrúar 2011 í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Nú hefur fossunum verið safnað saman suður yfir heiðar í því skyni að veita fólki á höfuðborgarsvæðinu sýn á þessa rennblautu dýrgripi Eyjafjarðar. Að lokinni sýningunni í Náttúrufræðistofunni ferðast fossarnir til Bochum í Þýskalandi þar sem þeir verða hengdir upp fyrir aðdáendur náttúru Íslands og góðrar ljósmyndunar.

Sýningarstjóri:
Hilmar J. Malmquist