Forstöðumannaskipti

09. september 2013

Nú um mánaðamót ágúst og september urðu forstöðumannaskipti á Náttúrufræðistofunni er Hilmar J. Malmquist fór í árs leyfi og Finnur Ingimarsson tók við. Á sama tíma hóf Hilmar störf á nýjum vettvangi sem forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, en hann var skipaður í embættið til fimm ára frá og með 1. september af fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra.

Á myndinni hér til hliðar afhendir Hilmar (t.v.) Finni lyklavöldin.

20130909141224111655.jpg

Málefni Náttúruminjasafns Íslands hafa verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu og virðist framtíð stofnunarinnar því miður vera nokkuð óljós. Meðal annars hefur ekki fengist úr því skorið af hálfu ríkisins hvort aðsetur Náttúruminjasafnsins verði í Perlunni í Öskjuhlíð eins og að hefur verið stefnt á s.l. ári. Vonast er til að málefni þessa höfuðsafns þjóðarinna í náttúrufræðum komist á hreint hið fyrsta.

Hilmar hóf störf á Náttúrufræðistofunni í febrúar 1992 og á því að baki ríflega 21 árs langan starfsferil hjá Kópavogsbæ. Náttúrufræðistofan var stofnsett 1983 og er Hilmar annar í röðinni til að gegna starfi forstöðumanns en fyrsti forstöðumaður var Árni Waag sem lengi var einnig kennari í Kópavogi. Tryggð starfsmanna við stofuna er ekki eingöngu bundin við forstöðumennina, en meðalstarfsaldur þeirra sem starfað hafa á Náttúrufræðistofunni undanfarin ár er nærri tíu ár. Finnur Ingimarsson sem gegnt hefur starfi sérfræðings á Náttúrufræðistofunni mun gegna starfi forstöðumanns næsta árið. Framvinda mála hjá Náttúruminjasafni Íslands mun ráða hvort Hilmar snýr aftur til baka til Náttúrufræðistofu Kópavogs.