Nornahár úr Nornahrauni

28. nóvember 2014

Á Náttúrufræðistofunni er nú til sýnis nornahár og hraunmoli úr gosinu í Holuhrauni sem menn eru farnir að kalla Nornahraun og staðið hefur yfir síðan í ágúst síðastliðnum.

20141128140742054577.jpg

Nornahár er náttúruleg steinull, gerð úr örfínum glerþráðum sem oft safnast saman í vöndla og velta undan vindi. Myndun nornahára er mjög sjaldgæf og þau varðveitast afar illa enda eru þau brothætt og molna fljótt. Nornahár myndast í flæðigosum þegar þunnfljótandi basaltkvika þeytist upp úr gígnum, splundrast og dregst út í örfín hár um 0,001–0,01 mm í þvermál. Í öðrum enda háranna myndast gjarnan dropi sem kallaður er nornatár. Erfitt er að meta lengd háranna enda eru þau afar viðkvæm og molna fljótt. Lengsta hár sem mælt var úr Kröflugosinu 1981 var tæplega 10 cm langt, en flest voru um 1–5 cm að lengd.

Uppruna heitisins nornahár má rekja til Havaíeyja, en á máli frumbyggja nefnist fyrirbærið Pelehár sem einnig er fræðiheiti fyrirbærisins. Hárin eru kennd við Pele sem er gyðja elds og eldfjalla í trú frumbyggja Havaíeyja. Pele ríkir yfir allri Havaíeyju (stærstu og syðstu eyju eyjaklasans) og býr nú í gíg eldfjallsins Kiláea, en þar hefur eldgos staðið yfir síðan árið 1983. Íslenska heitið nornahár er dregið af því erlenda og er úr smiðju jarðfræðinganna Sigurðar Þórarinssonar og Jóns Jónssonar. Nornahárum og myndun þeirra var fyrst lýst árið 1894 frá Havaíeyjum af ameríska jarðfræðingnum James Dwight Dana (1813–1895).

Nornahára er fyrst getið hérlendis í lýsingu Jóns Steingrímssonar eldklerks á upphafi Skaftárelda 1783. Þar er fyrirbærinu lýst sem loðnu sandfalli. Í flæðigosinu í Öskju 1961 urðu íslenskir jarðvísindamenn fyrst vitni að myndun nornahára þótt í litlum mæli hafi verið og hárin í grófara lagi. Í Surtseyjargosinu sáu menn fyrst nornahár í stórum stíl, nánar tiltekið árið 1966 þegar mikið magn hára barst yfir gígbarm Surts og vöndlar þeirra rúlluðu niður gígvegginn og út í sjó. Nornahára varð einnig vart í Kröflueldunum 1975–1984.

Heimildir:
Sigurður Þórarinsson (1984). Nornahár. I. Brot úr rannsóknarsögu. Náttúrufræðingurinn 53: 127–134.
Magnús Ólafsson, Páll Imsland og Guðrún Larsen (1984). Nornahár. II. Efni, eiginleikar og myndun. Náttúrufræðingurinn 53: 135–144.
Helgi Torfason (1984). Nornahár. III. Nornahár frá Kröflugosinu í janúar 1981. Náttúrufræðingurinn 53: 145–147. www.volcanodiscovery.com