Safnanótt 2015

03. febrúar 2015

Dagana 5.–8. febrúar verður haldin vetrarhátíð í Reykjavík eins og undanfarin ár. Að venju teygir hún anga sína yfir höfuðborgarsvæðið með magvíslegum viðburðum. Hápunktur hátíðarinnar er Safnanótt sem haldin er föstudagskvöldið 6. febrúar. Flest söfn svæðisins taka þátt með því að hafa opið frá kl. 19:00 til 24:00 og standa jafnframt fyrir sérstakri dagskrá þetta kvöld.20150203161338452434.jpg

Menningarhúsin í Kópavogi taka þátt eins og undanfarin ár og í Safnahúsinu veður fjölbreytt dagskrá. Náttúrufræðistofan stendur fyrir tveimur viðburðum.

Kl. 19:00–23:00 Brynja Davíðsdóttir hamskeri verður með opna vinnustofu í anddyrinu þar sem hún kynnir þetta vandasama handverk fyrir gestum og gangandi. Brynja hefur verið helsti hamskeri Náttúrufræðistofunnar undanfarin ár, en hamskurðinn lærði hún í Bretlandi á árunum 1994–1996.

Kl. 20:00–21:00 Bergrún Arna Óladóttir gjóskulagafræðingur og nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans heldur fyrirlestur um fjögur virkustu eldstöðvakerfi landsins, Grímsvötn, Bárðarbungu, Kötlu og Heklu. Sérstök áhersla verður á Bárðarbungukerfið þar sem yfirstandandi eldgos í Nornahrauni á sér stað. Farið verður yfir hverskonar gos hafa átt sér stað á kerfunum og stiklað á stóru í gossögu þeirra.