Erindi númer tvö í erindaröð um umhverfismál, litið til framtíðar

17. maí 2016

Þann 19. maí mun Einar Jónsson, sviðsstjóri stefnumótunar og þróunar hjá skipulagsstofnun, flytja erindi númer tvö í erindaröð Náttúrufræðistofu og Bókasafns Kópavogs um umhverfismál. Erindið nefnist "Landsskipulagsstefna, nýtt ferli sem setur umgjörð um skipulagsmál á landsvísu." Þar er um að ræða heildstæða skipulagsstefnu fyrir Ísland sem tekur til margra ólíkra þátta landnýtingar eins og vegagerðar, þéttbýlismyndunar, sumarhúsabyggðar, fiskræktar í ám og við strendur o.m.fl. Landsskipulagið nær nefnilega frá fjöllum til grunnsævis, fjarða og voga.

20160518090232214622.jpg

Alþingi samþykkti 16. mars sl. þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026. Samþykkt hennar markar ákveðin tímamót í skipulagsmálum hér á landi. Með henni er í fyrsta sinn sett fram heildstæð stefna á landsvísu um skipulagsmál. Stefnan varðar byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli, auk skipulagsmála á miðhálendinu. Þá er einnig vikið að skipulagsmálum haf- og strandsvæða.

Í landsskipulagsstefnu eru sett fram sjónarmið og áherslur í skipulagsmálum, til útfærslu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Þar útfæra sveitarstjórnir hvernig þær telja best við eiga að vinna úr stefnunni innan sinnar lögsögu og í samvinnu við önnur sveitarfélög þegar þannig háttar.

Landsskipulagsstefna getur einnig haft áhrif á áætlanir stjórnvalda á landsvísu í málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun. Gert er ráð fyrir að við mótun slíkra áætlana ríkisins sé horft til þeirra áherslna sem settar eru fram í landsskipulagsstefnu. Það getur átt við áætlanir eins og byggðaáætlun, kerfisáætlun, rammaáætlun og samgönguáætlun, svo dæmi séu tekin. Auk þess að vera framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga og áætlanagerð ríkisins, felur landsskipulagsstefna einnig í sér tiltekin verkefni, svo sem leiðbeiningar- og þróunarverkefni, til að hrinda tilteknum markmiðum stefnunnar í framkvæmd.

Við mótun landsskipulagsstefnu hefur verið lögð rík áhersla á opið samráðsferli og gegnsæi, til að stuðla að sem breiðastri samstöðu um inntak hennar og áherslur. Í kynningunni verður farið yfir ferlið við mótun stefnunnar og þann lærdóm sem hægt er að draga af því. Einnig verður vikið að framfylgd stefnunnar og fyrirliggjandi verkefnum á næstu misserum í tengslum við landsskipulagsstefnu.

Fyrirlesturinn fer fram á 1. hæð safnahússins og eru allir velkomnir.
Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.