Mannfólkið og umhverfi þess

15. nóvember 2017

Næstkomandi sunnudag 19. nóvember kl. 15.00 - 17.00 verður haldið málþing í Gerðarsafni – Listasafni Kópavogs. Málþingið er opið öllum og fer fram í öðrum sýningarsal safnsins. Gert er ráð fyrir kaffihléi í Garðskálanum.

Aðalviðfangsefni umræðnanna tekur mið af seinni hluta sýningarinnar Staðsetningar, með verkum Einars Garibalda Eiríkssonar og Kristjáns Steingríms Jónssonar sem opnuð var í byrjun mánaðarins í Gerðarsafni. Á fyrri hluta sýningarinnar voru sýnd nýleg verk listamannanna en nú má í báðum sölum safnsins skyggnast inn í sköpunar- og vinnuferli þeirra eins og þau hafa mótast síðustu áratugi. Verk þeirra fela meðal annars í sér athuganir á náttúru, stöðum og staðsetningum, ásamt því að báðir velta fyrir sér sambandi okkar mannfólksins við umhverfi okkar.

Til pallborðsumræðunnar hefur verið boðið tveimur virtum vísindamönnum, prófessorunum Þóru Ellen Þórhallsdóttur líffræðingi og Gísla Pálssyni mannfræðingi. Þau hafa bæði um árabil fjallað um samband manns og náttúru út frá sjónarhorni sinna fræðigreina en líka látið að sér kveða í almennri umræðu. Þau munu ræða um viðfangsefni sýningarinnar og sínar eigin rannsóknir ásamt listamönnunum tveimur og sýningarstjórunum Jóni Proppé listheimspekingi og Kristínu Dagmar Jóhannesdóttur, listrænum stjórnanda Gerðarsafns.