Tannhvalir

Tannhvalir hafa tennur og eru þær mismargar og ólíkar að gerð eftir hvalategundum. Langflestir tannhvalir éta einkum fisk og smokkdýr, en nokkrar tegundir tannhvala eru kjötætur.

Tannhvalir (undirættbálkur, Odontoceti)
Búrhvalaætt (Physeteridae) – 1 tegund við Ísland, búrhvalur
Svínhvalaætt (Ziphiidae) – 4 tegundir við Ísland, andarnefja, gáshnallur, króksnjáldri og norðsnjáldri
Náhvalaætt (Monodontidae) – 2 tegundir við Ísland, mjaldur og náhvalur
Hnísuætt (Phocoenidae) – 1 tegund við Ísland, selhnísa
Höfrungaætt (Delphinidae) – 7 tegundir við Ísland, blettahnýðir, leifturhnýðir, léttir, stökkull, rákaskoppari, háhyrningur og grindhvalur

Fróðleikur um hvali

Alls eru þekktar 75-80 núlifandi tegundir af hvölum í heimshöfunum.

Í hafinu við Ísland eru þekktar um 23 tegundir hvala og teljast 15 þeirra algengar. 

Flestar stóru hvalategundirnar dvelja við Ísland yfir sumarið við fæðuöflun en á veturna halda þeir sig á suðlægari hafsvæðum, allt undir miðbaug. og þar eignast þeir afkvæmin. 

Hvalir eru spendýr sem aðlagast hafa lífi í sjó. Þeir þróuðust frá landspendýrum fyrir um 60 milljón árum síðan. Talið er að landforveri hvala hafi tilheyrt frumstæðum meiði hófdýra og að dýrið hafi líkst stórvöxnum úlfi og lifað ránlífi við vötn og sjávarstrendur. Af núlifandi hófdýrum eru flóðhestar taldir einna skildastir hvölum.

Hvalir skiptast í þrjá undirættbálka og eru tannhvalir og skíðishvalir núlifandi, en fornhvalir dóu alfarið út fyrir um 7 milljón árum síðan. 

Elstu steingervingar af fornhvölum eru liðlega 50 milljón ára gamlir. Þeir hafa fundist í jarðlögum í Egyptalandi og Pakistan. Fornhvalir voru tenntir og sumir mjög stórir, allt að 22 m langir. Blómaskeið fornhvala stóð yfir í 15 milljón ár og því lauk fyrir um 25 milljón árum síðan, eða um svipað leyti og Ísland tók að myndast. 

Tannhvalir og skíðishvalir eru taldir afkomendur fornhvala og voru þegar komnir fram í sviðsljósið fyrir 40-45 milljón árum síðan. 

Tannhvalir hafa tennur og eru þær mismargar og ólíkar að gerð eftir hvalategundum. Langflestir tannhvalir éta einkum fisk og smokkdýr, en nokkrar tegundir tannhvala eru kjötætur.

Flestir hvalir eru langlífar skepnur eins og jafnan á við önnur stór dýr og viðkoman er hæg. Hvalkýr ganga með eitt fóstur í 9-12 mánuði og fæða kálf sem er háður kúamjólk næstu 1-2 árin. Flestir skíðishvalir tímgast á liðlega tveggja ára fresti en tannhvalir eiga afkvæmi á 2-4 ára fresti. Kynþroska verða flestir hvalir 5-15 ára og fullum vexti er jafnan náð við 15-30 ára aldur. Vöxtur og kynþroskaaldur er mjög breytilegur milli hvalategunda, tegundastofna, hafsvæða og því hvernig árar í hafinu. 

Hvalir þurfa ekki á eins sterkum beinum að halda og landspendýr vegna þess hve eðlisléttir þeir eru í sjó. Hlutverk beina í hvölum er aðallega vöðvafesting, en ekki burður. Bein hvala eru því létt og frauðkennd og ólík beinum annarra spendýra. Hvalir hafa heldur ekki afturlimi eins og önnur spendýr og í nær alla hvali vantar mjaðmabein.