Skíðishvalir

Skíðishvalir eru tannlausir en hafa í staðinn svokölluð skíði sem ganga niður úr efri gómi. Skíðin eru stinnar, þétt samliggjandi plötur úr hornkenndu húðefni. Þær klofna í trefjar og virka sem sía. 

Skíðishvalir lifa mest á smáum krabbadýrum, svo sem ljósátu og rauðátu. Þeir lifa einnig töluvert á torfufiski, einkum á ýmsum sílistegundum og loðnu. Fæðuna sía skíðishvalir úr sjónum með því að synda með opið ginið þar til það er orðið fullt, en þá þrýsta þeir tungunni upp í góm og loka gininu. Við þetta þrýstist sjór út á milli skíðistrefjanna en bráðin situr eftir á skíðunum og er kyngt.

Fróðleikur um hvali

Skíðishvalir (undirættbálkur, Mysticeti)
Gráhvalaætt (Eschrichtiidae) – 1 tegund, sandlægja (Útdauð í Atlandshafi)
Reyðarhvalaætt (Balaenopteridae) – 5 tegundir við Ísland, hnúfubakur, steypireyður, langreyður, sandreyður og hrefna (hrafnreyður)
Sléttbakaætt (Balaenidae) – 2 tegundir við Ísland, norðhvalur (í útrýmingarhættu) og sléttbakur (í útrýmingarhættu).