Rándýr

Refur (Vulpes lagopus) Hundaætt (Canidae)
Refurinn er eina villta landspendýrið sem var á Íslandi þegar það var numið fyrir um 1.000 árum af norrænum mönnum. Líklega hefur rebbi lifað hér frá lokum síðustu ísaldar, fyrir um 11.000 árum síðan. 

Tvö meginlitarafbrigði eru til af refinum, hvítt og mórautt. Hvíta afbriðgðið er skjannahvítt að vetri til en grábrúnt að sumri. Mórauða afbrigðið er brúnt allt árið, en er þó heldur ljósara að vetri til. Mórauða afbrigðið er um tvisvar sinnum algengara en það hvíta. Hvítir refir eru fágætari en mórauðir refir á landsvæðum þar sem stór hluti fæðunnar er sóttur að sjó. Mórauðir refir dyljast betur í fjöru en hvítir refir. Bleikt litarafbrigði af íslenska refinum er sjaldgæft, en það finnst einkum á Vestfjörðum. Öll litarafbrigðin þrjú blandast óhindrað saman. 

Refir lifa langmest á fuglum. Þeir veiða einkum fýl, langvíu, lunda, æðarfugl, rjúpu, gæsir og vaðfugla. Gæsir og vaðfuglar ásamt eggjum og ungum þeirra eru mest étin á sumrin. Að auki éta refir ýmis önnur hryggdýr, t.d. hrognkelsi, hagamýs, selshræ og stundum sauðfé. Þá éta þeir hryggleysingja í einhverjum mæli, t.d. lirfur og púpur þangflugunnar og marflær, og auk þess þrífst rebbi á berjum og sveppum. 

Refir eru mest á ferli í ljósaskiptum kvölds og morgna. Þeir hafa mjög næmt þefskyn og þurfa ekki að treysta sjóninni í sama mæli og fuglar, helsta bráð refa, gera.

Blárefir sem sloppið hafa af refabúum geta æxlast við íslenska refi. Blendingsafkvæmið lítur allt öðru vísi út en íslenski refurinn. Blöndun blárefa og íslenskra refa getur stefnt íslenska refinum í hættu vegna þess að blárefir eru innfluttir og ekki aðlagaður íslenskri náttúru í sama mæli og íslenski refurinn.

Refurinn ber mörg nöfn, eins og algengt er um dýr og annað í umhverfinu sem skiptir manninn miklu máli. Hér eru þau þekktustu:

Djanki, Dratthali, Gráfóta, Holtaþór, Lágfóta, Melrakki, Refur, Skaufhali, Skolli, Tófa, Tæfa, Vargur, Vembla

Minkur (Neovison vison)
Minkar eru ekki upprunaleg landspendýr á Íslandi. Þeir eru innfluttir og komu fyrst til landsins árið 1931 og sluppu fljótlega úr haldi eftir það. Síðan hafa þeir náð fótfestu í náttúrunni og breiðst út um all land. 

Kjörlendi minka er yfirleitt annað hvort við sjávarsíðuna eða við ár og vötn inn til landsins. Minkar synda og kafa vel og fiskar eru langmikilvægasta fæða þeirra. Við sjávarsíðuna éta þeir einkum marhnút, sprettfisk og keilubróðir. Við ferskvatn lifa þeir mest á silungstittum og hornsílum. Að auki veiða minkar einnig svartfugla, máffugla, andarunga og andaregg, hagamýs, skordýr og krabbadýr og fleiri dýr.