Fiðrildi

Ættbálkur fiðrilda (Lepidoptera) telur um 165 þús. tegundir í 127 ættum. Lirfurnar eru yfirleitt plöntuætur en fullorðnu dýrin hafa sograna og lifa á blómasafa. Hérlendis lifa um 60 tegundir en að flækingum meðtöldum hafa fundist hér um 100 tegundir. Meirihluti íslenskra fiðrilda tilheyrir þremur ættum, en það eru fetaætt (Geometridae), ygluætt (Noctuidae) og vefaraætt (Tortricidae).

Fetar (Geometridae)
Auðveldast er að þekkja feta á því að þeir hvílast gjarna með útbreidda vængi. Hér á landi eru 16 tegundir feta (Geometridae) og má nefna birkifeta, túnfeta og haustfeta sem dæmi. Haustfeti er oft áberandi í okóber.

Yglur (Noctuidae)
Fremur stór og búkmikil fiðrildi, mun þungbyggðari en fetarnir og miklir mathákar. Þær geta því valdið skemmdum á gróðri og er grasmaðkurinn, sem er lirfa grasyglunnar etv. þekktasta dæmið. Sumar tegundir yglulirfa sækja mest í vissar plöntutegundir og nafn ertuyglunnar (melanchra pisi) gefur gefur til kynna sérstakt dálæti á baunagrasi þótt margt annað sé á matseðlinum.

Vefarar (Tortricidae)
Þessi fiðrildi þekkjast á því að þau leggja vængina að bol í hvíldarstöðu þannig að vængirnir hjúpa bolinn. Hér á landi lifa átta tegundir vefara (Tortricidae). Þessum fiðrildum er stundum ruglað saman við vorflugur (Trichoptera) sem eru alls óskildar.
Á þessar síðu má m.a. sjá nokkrar mismunandi tegundir af vefurum (á ensku).

Flækingar
Flækingsfiðrildum má skipta í tvo hópa eftir því hvort þau berast hingað fyrir eigin afli eða með varningi. Sum þeirra fiðrilda sem fljúga hingað af sjálfsdáðun eru árlegir gestir.
Nokkuð er um árlega flækinga sem berast hingað fyrir eigin vængjakrafti, s.s. gammayglu (Autographa gamma), skrautyglu (Phlogophora meticulosa) og undanfarin tvö ár hefur borið nokkuð á kóngasvarma (Agrius convolvuli) og aðmírálsfiðrildum(Vanessa atalanta).