Bjöllur

Bjöllur (Coleoptera) er fjölskipaður ættbálkur sem inniheldur 166 ættir og um 370 þús. tegundir. Hér á landi hafa fundist um 160 tegundir auk flækinga. Helsta einkenni þeirra er að fremra vængjaparið er ummyndað í skildi, en undir þeim eru flugvængirnir. Þær eru margvíslegar að stærð, lit og lögun og geta verið mjög skrautlegar. Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má finna umfjöllun og ljósmyndir af fjölmörgum íslenskum bjöllutegundum, auk annars fróðleiks er varða bjöllur.

Smiðir (Carabidae): Í hópi smiða eru járnsmiðirnir sem flestir þekkja. Hér á landi hafa fundist um 30 tegundir smiða en talið er að alls finnist um 20 þús. tegundir í heiminum. Þeir eru rándýr.

Jötunuxar (Staphylinitae) eru langvaxnar bjöllur með stutta skjaldarvængi þannig að afturbolurinn stendur nakinn undan. Flugvængirnir eru brotnir saman undir skjaldarvængjunum og sjást því ekki. Af þeim hafa um 70 tegundir fundist en talið er að um 20 þús. tegundir finnist í heiminum. Þeir eru rándýr.

Ranabjöllur (Curculionidae): Eins og nafnið bendir til, þá er höfuðlag ranabjalla (Curculionidae) sérstakt. Munnur dýrsins er fremst á rana eða totu sem gengur fram úr höfði þess. Skjaldarvængir eru samgrónir og dýrin ófleyg. Talið er að um 20 teg. lifi hér á landi en nokkur fjöldi slæðinga hefur einnig fundist. Talið er að til séu um 40 þús. tegundir í heiminum og þar með er þetta stærsta bjölluættin. Ranabjöllur eru plöntuætur, bæði á lirfu- og fullorðinsstigi.

Maríubjöllur (Coccinellidae) eru næsta hálfkúlulaga, oftast með skærlita skjaldarvængi með svörtum blettum. Af þeim eru þekktar um 3400 tegundir, en aðeins tvær lifa hér á landi. Þær eru rándýr og taldar sérlega gagnlegar í baráttunni við blaðlýs.

Brunnklukkur (Dytiscidae): Af brunnklukkuætt (Dytiscidae) eru þekktar um 4000 tegundir en af þeim lifa 4 hér á landi. Brunnklukkur lifa í tjörnum og geima loft til öndunar undir skjaldarvængjunum. Þær eru vel fleygar og flytja sig þannig milli tjarna. Þær eru rándýr sem og lirfur þeirra, sem kallast vatnskettir.