Æðvængjur

Ættbálkur æðvængja (Hymenoptera) samanstendur af 91 ætt, en innan þeirra eru um 200 þús. tegundir. Æðvængjur skiptast í tvo undirættbálka, sagvespur annarsvegar en snýkjuvespur, geitunga, maura, bý- og hunangsflugur hinsvegar. Hér á landi hafa fundist um 260 tegundir æðvængja.

Geitungar
Á íslandi eru þekktar fjórar tegundir geitunga, en það eru holugeitungar, húsageitungar, trjágeitungar og roðageitungur. Óhætt er að segja að geitungar séu með óvinsælustu pöddum á landinu. Þetta stafar af því að þeir hafa stungubrott sér til varnar, sem tengdur er eiturkirtli. Eitrið er ætlað til varnar en ekki veiða og þannig samsett að það veldur verulegum óþægindum, en er ekki hættulegt nema í undantekningar tilfellum. Þetta á við hafi fólk ofnæmi fyrir því eða, stungan komi á slæman stað s.s. nærri öndunarfærum. Talið er að um 3% fólks geti haft ofnæmi fyrir geitungastungum. Rétt er að benda á að mikilvægt er að ganga vel frá flugnaneti á barnavögnum. Þá er gott að venja sig á að drekka bjór eða sæta drykki úr glösum utanhúss, þar sem geitungar vilja stundum lenda ofan í drykkjarílátum. 

Allar tegundir geitunga sem finnast á landinu gera sér bú og fer staðsetning þeirra fer nokkuð eftir tegundum. Þannig eru holugeitungabú oftast neðanjarðar, t.d. í hleslum eða undir grjóthellum, meðan trjágeitungabú eru í trjám eða undir þakskeggjum. 

Ef leggja á til atlögu við geitungabú er best að hafa samband við einhvarn sem kann til verka. Ætli menn að gera þetta sjálfir er góður og þéttur klæðnaður nauðsynlegur, þannig að varnarliðið nái ekki að komast niður um hálsmál eða upp í ermar. Innanhúss er gott að nota hárlakk til veiða, en það klessir saman vængi og stíflar öndunarfæri þeirra. Þá má útbúa eða kaupa geitungagildrur þar sem egnt er fyrir þá með sætum vökva. Þannig gildrur má nota bæði innan- og utanhúss.

Hunangsflugur
Bústnar og loðnar flugur, svartar og gular að lit. Þær eru stórar á mælikvarða íslenskra skordýra. Fimm tegundir hafa fundist hér á landi og eru tvær þeirra algengar. Mörgum stendur stuggur af hunangsflugum, en það er næsta ástæðulaust. Þótt þær séu búnar eiturbroddi til varnar eins og geitungarnir, eru þær ekki árásargjarnar og stinga ekki nema viðkomandi hafi til þess unnið.

Snýkjuvespur
Margbreitilegur hópur (10 þús. teg.) sem á það sameiginlegt verpa eggjum sínum í lirfur annarra skordýra. Sumar hafa langa varppípu og geta jafnvel leitað uppi bjöllulirfur í trjástofnum. Margar tegundir snýkjuverpa eru bundnar við ákveðna hýsla, þ.e. lirfur ákveðinna skordýrategunda. Þegar vespan hefur fundið hýsil við hæfi borar hún varppípu sinni í hana og verpir einu eggi. Lirfan sem úr því skríður hefst þegar handa við að éta hýsilinn, en þó á svo varfærinn hátt að hýsillinn heldur lífi uns lirfan er fullþroskuð.

Sagvespur
Einkennandi fyrir þessar vespur er að varppípa þeirra er ummynduð í n.k. sagarblað sem nýtist vel til að gera raufar í plöntustöngla fyrir egg vespunnar.

Trjávespur
Þessar vespur hafa langa varppípu sem þær nota til að bora holur í tré. Eggi er síðan orpið í holuna og lirfan nærist á viðnum. Enn sem komið er hafa þessar vespur aðeins fundist sem flækingar hér á landi.

Húsamaur
Húsamaur (Hypoponera punctatissima) er 2-4 mm langur og fremur auðþekktur á n.k. aukalið milli frambols og afturbols. Hér á landi heldur hann sig aðallega undir gólfplötum húsa, þar sem jarðvegur hefur sigið. Oft finnst hann í grennd við lélegar lagnir sem skapa kjöraðstæður fyrir þá, þ.e. hita, raka og líflegt smádýralíf.

Alla jafna verður ekki vart við húsamaur nema þegar drottningar yfirgefa búin til að stofna ný. Drottningarnar eru vængjaðar, en allir aðrir meðlimir búsins eru vængjalausir. Húsamaur er oft talinn til meindýra hér á landi, en vegna staðsetningar búanna getur verið erfitt að eyða honum. Sé grunur um lélegar lagnir er besta ráðið að koma þeim í lag og ætti þá að vera hægt að komast fyrir maurinn í leiðinni.