Rhyolít

Rhyolit er dulkornótt eða glerkennt súrt gosberg (>65% SiO2), oft ljóst að lit. Það er oft straumflögótt með mislitum röndum. Það finnst um allt land en minnst þó á vestfjörðum. Helstu frumsteindir í ljósgrýti: Kvars, ortóklas, plagíóklas og glimmer (vatnsblönduð kalí-ál-siliköt). Af ljósgrýti eru til nokkur afbrigði.

Ljósgrýti
"Hefðbundið" líparít, sem myndar áberandi ljósar skellur í fjöllum. Er oft gult, grátt eða rauðleitt. Líparítkvika er seig og hleðst upp yfir gosopinu.

Hrafntinna
Hrafntinna mydast við snögga kælingu líparítkviku. Hun er glerkennd, kolsvört og klofnar gjarna í flísar með hvössum eggjum. Þekktustu hrafntinnusvæðin eru við Torfajökul og austan Mývatns.

Biksteinn
Biksteinn myndast við snögga kælingu líparítkviku eins og hrafntinna, en er frábrugðin henni að því leiti að hann er fitugljáandi, vatnsríkari og líkist frekar kolamolum. Hann er yfirleitt svartur, en stundum græn- eða móleitur. Hann er algengur í líparíthraunum.

Perlusteinn
Þetta er vatnsríkt afbrigði af líparíti. Það hefur myndast við gos í vatni eða undir jökli. Nafnið er til komið af því að við veðrum brotnar hann niður í perlulaga kúlur. Þegar perlusteinn er hitaður þenst hann út og hefur þannig verið notaður til einangrunar. Mikið er af perlusteini í Loðmundarfirði og í Prestahnúk við Kaldadal.

Baggalútar
Litlar kúlur sem stundum eru samvaxnar, oft 0,5-2 cm. Þeir eru oftast rauðbrúnir eða gráleitir. Baggalútar myndast þegar nálar af kvartsi og feldspati vaxa inn í gasbólur sem orðið hafa innligsa í kvikunni. Séu þeir brotnir sjást oft sammiðja hringir. Þeir eru harðari en bergið umhverfis og verða þvi eftir þegar það veðrast. Þeir finnast helst í skriðum og á áreyrum, t.d. í Hvalfirði og Borgarfirði eystra.

Ljós vikur
Þessi vikur er mjög frauðkenndur og léttur í sér og getur flotið lengi á vatni. Hann myndast við hraðstorknun líparítkviku í öflugum þeytigosum. Ljós vikur hefur m.a. komið frá Heklu, Snæfellsjökli, Öræfajökli og Öskju.

Flikruberg
Flikruberg myndast þegar svokölluð eldský eða freyðigos, setjast til. Þessi eldský eru samsett af brennheitu gasi, kvikuögnum, vikri og bergmylsnu og mynda n.k. öskuflóð, sem renna niður fjallshlíðarnar. Þegar þau stöðvast þrýstist gasið úr þeim og fasta efnið pressast saman. Flikrurnar sem bergið er kennt við eru útflattar vikurklessur. Flikruberg getur verið misjafnt að útliti og einnig misfast í sér.