Molaberg

Molaberg (setberg) er samþjöppuð bergmylsna úr storkubergi. Bergmylsnan myndast vegna veðrunar og rofs þar sem áhrif hitastigs, vatns og vinda spila saman.

Molaberg
Molaberg er til í margskonar mynd og með mismunandi kornastærð. Molaberg myndar setlög og í þeim má stundum finna steingerfinga.

Fast molaberg (setberg) er oft flokkað eftir kornastærð:
Leirsteinn < 0,002 mm
Sandsteinn 0,002-2 mm
Völuberg 2-200 mm
Hnullungaberg > 200 mm 

Laust molaberg er oft flokkað eftir kornastærð:
Leir < 0,002 mm
Méla (silt) 0,002-0,02 mm
Sandur 0,02-2 mm 
Möl 2-20 mm
Hnullungamöl 2-20 cm
Hnullungar > 20 cm

Jökulruðningur, þar með talin grettistök, telst til molabergs. Í jökulruðningi ægir yfirleitt saman öllum kornastærðum. 
Jökulberg er harðnaður jökulruðingur. 
Þursaberg finnst einkum í skriðum og er bergið með hvössum eggjum.
Rauðaberg finnst sem rauð millilög í blágrýtismynduninni. Það er að mestu úr glerkenndri, samlímdri gosösku og fornum jarðvegi. Liturinn stafar af útfellingu járns í súrum jarðvegi þegar hraun lagðist yfir hann. 

Steingerfingar
Í fíngerðu molabergi finnast stundum steingervingar. Þeir eru leifar gróðurs eða dýra sem varðveist hafa í jarðlögum. Þegar lífverur steingerast á sér stað efnafræðileg umbreyting og ólífræn efni koma í stað lífrænna efna.

Surtarbrandur eru steingerðar (kolaðar), samanpressaðar gróðurleifar með talsvert miklu magni af kolefni (um 70% C). Þunn surtarbrandslög, blönduð ösku, finnast víða í elsta hluta blágrýtismyndunar Íslands. Rannsóknir benda til að surtarbrandurinn sé elstur um 20 milljón ára, eða álíka gamall og elsta berg á Íslandi. Aldurinn á hvoru tveggja gæti þó verið eitthvað meiri, en erfitt er að aldursgreina íslenskt berg. 

Viðarbrandur er afbrigði surtarbrands úr koluðum, útflöttum trjábol. Í viðarbrandi má vel greina árhringi.

Viðarsteinn er steinrunninn viður þar sem kísildíoxíð (kísilsýra, SiO2), hefur komið í stað lífræns efnis. Árhringir eru oft auðgreinanlegir.

Af dýrasteingervingum er lítið á Íslandi, sér í lagi af landdýrum. Helst er að finna steingerð sjávardýr, langmest skeljar lindýra, en eins og víðast hvar annarsstaðar hafa þær varðveist best meðal dýra.

Af gróðurleifum í surtarbrandi má ráða að flóra Íslands í árdaga á tertíertímabilinu var ekki ólík því sem nú er í laufskógabelti í austanverðum Bandaríkjunum.
Helstu trjáplöntur sem bæði er að finna í íslenskum surtarbrandslögum og í austanverðum Bandaríkjunum:

LAUFTRÉ 
Elrir 
Beyki 
Hlynur 
Eik 
Álmur 
Kastaníutré
Platantré
Heslirunnar
Kristsþyrnir
Valhnota 
Túlípanatré
Magnolía
Lárviður
Hickory

BARRTRÉ
Fenjatré
Risafura
Fura
Þinur
Lerki