Jarðmyndanir

Á Íslandi er fjórar megingerðir af jarðmyndunum eða berggrunni og eru þær allar úr basalti.

BLÁGRÝTI 
Blágrýti er elsta jarðmyndun Íslands og varð til á tertíertímabilinu. Elst er blágrýtið um 20 milljón ára en yngst um 3 milljón ára. Blágrýti er líklega að finna undir öllu Íslandi, einnig neðanjarðar um miðbik landsins, en þar er það sennilega hulið yngri jarðmyndunum. 

GRÁGRÝTI
Grágrýti er næstelsta jarðmyndun Íslands og varð til á ísöld. Ísöld tekur til tímabilsins frá lokum tertíer fyrir um 3 milljón árum síðan og fram að upphafi nútíma fyrir um 10 þúsund árum síðan. Á ísöld skiptust á jökulskeið og hlýskeið og er grágrýtið runnið einkum á hlýskeiðum. Stundum er greint á milli eldri grágrýtismyndunar, sem gaus á árkvartertímabilinu (fyrir 3,1-0,7 milljón árum) og yngri grágrýtismyndunar sem gaus á síðkvartertímabilinu (fyrir 700-10 þúsund árum).

MÓBERG
Móberg tilheyrir seinnihluta ísaldar og gaus einkum á jökulskeiðum þegar jöklar huldu landið meira eða minna. Aðalgostímabilið stóð yfir frá því fyrir um 700 þúsund árum og fram að lokum ísaldar fyrir um 10 þúsund árum. Móbergið er því hluti eða deild innan yngri grágrýtismyndunarinnar, en gosið undir jökli. 

NÚTÍMAHRAUN
Nútímahraun eru jarðmyndanir sem gosið hafa frá lokum ísaldar fyrir um 10 þúsund árum síðan og fram á okkar daga. 


Auk jarðmyndana úr basalti eru LJÓSGRÝTI og DJÚPBERG í berggrunni Íslands, en útbreiðsla þessara tveggja jarðmyndana er mjög takmörkuð miðað við basaltjarðmyndanirnar.

HOLUFYLLINGAR
Þegar heitt vatn leikur um holrými í berggrunni jarðar leysast upp ýmis steinefni úr berginu. Þegar vatnið kólnar falla steinefnin úr upplausn og mynda kristalla. Ef holur og glufur eru í berginu vaxa kristallarnir og klæða eða fylla holrýmið að innan og mynda holufyllingar.
Tegund holufyllingar ræðst af myndunardýpi, hitastigi og efnasamsetningu bergs. Í sömu holu má finna fleiri en eina tegund af steind.
Helstu flokkar holufyllinga á Íslandi eru:

GEISLASTEINAR 
KVARSSTEINAR 
KARBÓNATSTEINAR 
MÁLMSTEINAR
HÁHITASTEINAR
LEIRSTEINAR

Í gosbeltunum, þar sem grágrýti, móberg og nútímahraun eru allsráðandi, er almennt mjög lítið um holufyllingar. Undantekningar eru við háhitasvæði. 
Í blágrýtismynduninni, sérstaklega í tengslum við megineldstöðvar og djúpbergsinnskot, er mikið af holufyllingum. Holufyllingar eru jafnan aðgengilegastar við sjávarströndina, þar sem mest hefur rofnað úr berglagastaflanum.