Holufyllingar

Þegar heitt vatn leikur um holrými í berggrunni jarðar leysast ýmis steinefni upp úr berginu. Þegar vatnið kólnar falla steinefnin úr upplausn og mynda kristalla. Ef holur og glufur eru í berginu vaxa kristallarnir og klæða eða fylla holrýmið að innan og myndast þá holufyllingar.
Hér að neðan verður getið helstu gerða holufyllinga sem finnast hér á landi.

Geislasteinar (Zeólítar)
Geislasteinar eru með algengustu holufyllingum hér á landi og er Ísland frægt fyrir þá. Geislasteinar eru gerðir úr natríum-, kalíum- og eða kalsíum-álsílikötum auk vatns. Steindirnar myndast við fremur lágt hitastig. 
Þekktar eru um 20–30 tegundir geislasteina og er kristalgrindin margbreytileg. Þeir eru venjulega hvítir eða glærir og með gler- eða skelplötugljáa. Harkan er á bilinu 4–5,5. 
Nafnið zeolit er komið úr grísku og þýðir suðusteinn, en við glæðingu bólgna geislasteinar upp og „sjóða“.
Hér að neðan verður getið nokkura geislasteina sem sjá má í steinasafni okkar.

Skólesít Einn algengasti geislasteinninn. Við upphitun vindur steinnin upp á sig líkt og ormur (skólex: ormur). Algeng lengd 1–3 cm. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si3O10*H2O

Mesólít Smágerðir geislabrúskar, með stökkum bortgjörnum nálum (<3 cm). Algengt með skólesíti í ólívínbasalti frá tertíertíma. Kristalgerð: mónóklín. Na2Ca2Al6Si9O30*8H2O

Mordenít Myndar brúsk af hárfínum og mjúkum þráðum. Nafnið er dregið af staðnum Morden á Nova Scotia í Kanada. Algeng lengd innan við 0,5 cm. Kristalgerð: rombísk. (Na,K2Ca)Al2Si10O24*H2O

Thomsonít Algengur og myndar þéttar, hvítleitar hálfkúlur. Algeng lengd innan við 0,5 cm. Kristalgerð: rombísk. NaCa2|(Al,Si)5O10|2*6H2O

Laumontít Sá geislasteinn sem myndast við hæstan hita. Algeng lengd 0,5 cm. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si4O12*H2O

Phillipsít Nokkuð alengur. Finnst bæði sem sem smágerðar kúluþyrpingar og strendingar. Algeng lengd innan við 0,5 cm. Kristalgerð: mónóklín. (1/2Ca,Na, K)3Al3Si5O16*6H2O

Stilbít Algengur. Plötulaga kristallar, vaxnir í horn til endanna. Minnir á knippi þegar þeir vaxa margir saman. Oft 1–2 cm á lengd. Kristalgerð: mónóklín. 
(Ca, Na2, K2)Al2Si7O18*7H2O

Heulandít Plötulaga kristallar, jafnan í búntum. Finnst oft með stilbíti. Heulandít var fyrst greint sem sérstök steind í sýnum frá Teigarhorni í Berufirði. Kristalgerð: mónóklín. 
(Ca, Na2, K2)Al2Si7O18*7H2O

Epistilbít Líkist stilbíti, en hefur þrístrenda kristalenda. Fremur fágætt og finnst óvíða nema á Íslandi. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si6O16*5H2O

Yugawaralít Glærir eða hvítir, þunnir kristalar (<1 cm). Fágætt. Finnst með stilbíti og heulandíti. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si6O16*4 H2O

Kabasít Teningslaga kristallar, oft með tígulflötum. Samvaxnir kristallar, tvíburar, finnast alloft. Einn allra algengasti geislasteinn hér á landi. Algeng lengd nokkrir mm. Kristalgerð: trígónal. CaAl2Si4O12*6H2O

Analsím Glergljáandi margflötungar. Algeng. Nafnið er úr grísku (analkis = kraftlaus) og vísar til rafleiðnieiginleika. Algeng lengd 2–5 mm. Kristalgerð: kúbísk. NaAlSi2O6*H2O

Apófyllít Ferstrendir kristalar, stakir eða í þyrpingum. Kristalgerð: tetragónal. KFCa4Si8O20*8H2O

Gýrólít Blaðlaga, sextrendir kristalar, oftast í knippum. Sjaldgæft. Kristalgerð: mónóklín. NaCa16(Si23Al)O60(OH)5*15H2O

Háhitasteinar
Háhitasteindir myndast við ummyndun bergs nokkuð djúpt í jörðu, yfirleitt við meiri hita en 250˚C.
Hér að neðan er getið nokkura háhitasteinda sem sjá má í steinasafni okkar.

Epidótít Oftast smákristallað, græn- eða gulgræn slikja innan á holu- eða sprunguveggjum. Finnst einkum í útkulnuðum meigineldstöðvum. Kristalgerð: mónóklín. Ca2(Fe,Al)Al2Si3O12(OH)

Prehnít Smáar, hnöttóttar kristalþyrpingar. Oftast fölgrænt, en stundum hvítt eða gráleitt. Finnst í rótum megineldstöðva og á háhitasvæðum. Kristalgerð: rombísk. Ca2A12Si3O10(OH)2

Granat Flokkur steinda með breytilega efnasamsetningu. Á Íslandi finnst einkum járnríkt granat (andradít) og kalsíumríkt granat (grossular). Jafnan rauðbrúnt eða brúnt. Kristalgerð: kúbísk. Ca3Al2[SiO4]3

Aktínólít Mjög fíngerðir, þráðlaga kristalar. Oftast grænleitt, hvítt eða gráleitt. Finnst einkum í gabbrói. Kristalgerð: mónóklín. (Ca2Mg,Fe)5Si8O22(OH,F)2

Hveraútfellingar
Við hveri og laugar myndast oft fjölbreytar steindir þegar berg ummyndast, leysist upp og nýjar steindir falla út.

Kalkhrúður (lindakalk) myndast við útfellingu kalks úr kalkríku vatni (hörðu vatni) sem kolsúrt vatn hefur leyst úr bergi jarðar. Kalkhrúður er einkum algengt á ölkeldusvæðum. Oft finnast för eftir plöntur í kalkhrúðri. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Kísilhrúður finnst aðallega við vatnshveri á háhitasvæðum (> 100˚C). Hrúðrið myndast þegar kísilsýra fellur úr kólnandi yfirborðsvatni. Stundum fellur kísilhrúður á gróður og klæðir hann kísilkápu. Með tímanum rennur kísilhrúður saman og myndar þéttan ópal. Kristalgerð: myndlaus. SiO2*H2O.

Brennisteinn fellur út á gufu- og leirhverasvæðum. Hann var numinn Íslandi áður fyrr, t.d. í Krýsuvík og Mývatnssveit, og fluttur út til framleiðslu á sprengiefnum. Kristalgerð: rombísk. S

Gifs myndar hvítar, tærar eða gráleitar kirstalflögur og stundum þykkar hellur með smávöxnum kristölum. Finnst í námunda við hveri og gufuauga. Kristalgerð: mónókín. CaSO4*H2O

Hverasalt (Halókritít) Hvít eða gulleit, gljáandi skorpa og ráðlaga brúskar. Hverasalt þéttist úr hveragufu á háhitasvæðum. Mjög vatnsleysanlegt. Kristalgerð: mónóklín. FeAl2(SO4)4*22H2O

Karbónatsteinar og aðrar saltsteindir
Kalsít og aragónít er í skeljum margra lífvera, einkum meðal götunga (Foraminiferida), kóraldýra (Scleractinia) og lindýra (samlokur og sniglar). Við myndun skelja binda dýrin koltvíildi (CO2) úr hafinu en við það getur hafið dregið meira af koltvíildi til sín úr andrúmsloftinu. Karbónatsteindir eru því mjög mikilvægar fyrir lífríki hafsins og hafa áhrif á magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Kalsít er að formi til ein fjölbreyttasta steindin sem fyrirfinnst á jörðinni og til eru mörg þúsund afbrigði. Kristalgerð og litur eru afar mismunandi í kalsíti.
Hér að neðan eru talin upp nokkur íslensk kalsítafbrigði og má sjá þau flest í safni okkar.

Silfurberg er vatnstært og eitt frægasta íslenska kalsítafbrigðið. Í ensku máli er silfurberg kennt við Ísland (Iceland spar). Vegna ljósbrotseiginleika (tvískautun ljósgeisla) var silfurberg mikið notað áður fyrr í smásjár og fleiri tæki. Um áratugaskeið var silfurberg úr námum við Helgustaði í Reyðarfirði og Hoffellsdal í Hornafirði flutt út til framleiðslu ljóstækja. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Sykurberg Gulbrúnt kalsítafbrigði og finnst einkum í skeljum í setlögum á Tjörnesi í Norður-Þingeyjarsýslu. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Kalsít Kalsítafbrigði með þunna plötulaga kristalla sem standa óreglulega á rönd í holunni. Þetta afbrigði er algengt í fornum megineldstöðvum. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Aragónít þekkist á geislóttum kristölum sem kalsít hefur ekki. Geislar aragóníts eru mun grófari en hjá geislasteinum. Aragónítkristalar geta orðið meira en 10 cm á lengd. Kristalgerð: rombísk. CaCO3

Járnblóm Afbrigði af aragóníti sem líkist kórali. Smitað járni (Fe). Kristalgerð: rombísk. CaCO3

Dólómít Kalsíum–magnesíum–karbónatsteind. Yfirleitt gulleitt, skáteningslaga og hálfgegnsætt. Fágætt á Íslandi. Kristalgerð: trígónal. CaMg(CO3)2

Síderít Járnkarbónat (járnspat) með gul- eða brúnlitar smákúlur með geislóttri innri gerð. Erlendis er það þýðingarmikið járngrýti, en sjaldgæft hér á landi. Kristalgerð: trígónal. FeCO3

Flúorít (grænleitt) er fágæt steind á Íslandi. Það getur gefið frá sér ljós, flúrljómun. Kristlagerð: kúbísk. CaF2

Þungspat (Barýt) Baríumsúlfat, er afar fágætt og finnst helst í grennd við djúpbergsinnskot. Nafnið er úr grísku (barus: þungur) og er þyngdin eitt aðaleinkenni steindarinnar. Kristalgerð: rombísk. BaSO4

Steinsalt (Halít) Steind úr natríumklóríði og finnst víða þar sem sjór eða saltvatn gufar upp. Steinsalt er mikið notað í matargerð og iðnaði. Kristalgerð: kúbísk. NaCl

Kvarssteinar
Kvarssteinar eru úr hreinu kísildíoxíði (SiO2), en sum afbrigði eru blönduð aðkomuefnum sem ljá steinunum ýmsa liti. Kvars er ýmist stórkristallað, smákristallað (dulkristallað) eða ókristallað (myndlaust). Kristalgerðin er sexstrend (hexagónal) og harkan á bilinu 5,5–7. 
Hér að neðan verður getið helstu tegunda íslenskra kvartssteina og má sjá þá flesta í steinasafni okkar.

Bergkristall Stórkristallað, tært kvarsafbrigði. Oft er aðeins oddurinn tær, en kristallinn að öðru leyti hvítur eða hálfgegnsær. Kristalgerð: Hexagónal. SiO2

Ametýst Stórkristallað, fjólublátt kvarsafbrigði. Nafnið ameþystos (gríska: allsgáður) tengist notkun steinsins sem vernd gegn ofdrykkju. Ametýst er fágætur á Íslandi og mun daufari á lit en t.d. ametýstar í Brasilíu þar sem þeir eru algengir. Kristalgerð: hexagónal. SiO2

Reykkvars Stórkristallað, gulbrúnt kvarsafbrigði. Nokkuð algengt. Kristalgerð: hexagónal. SiO2

Kalsedón Algeng holufylling í basalti og rhýólíti (líparíti). Einnig kallaður draugasteinn og glerhallur. Kalsedónar eru oft litaðir aðkomuefnum og skipatst gjarnan á mislitar rendur. Nafnið er dregið af bænum Khalkedon í Grikklandi. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Ónýx Afbrigði af kalsedón með mislitum, beinum og samsíða rákum. Ónýx með gráum og hvítum rákum er nokkuð algengur á Íslandi. Nafnið er úr grísku og þýðir nögl, en rákirnar minna á þverbönd í fingurnöglum. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Agat Afbrigði af kalsedón með mislitum rákum sem fylgja oftast útlínum holuveggja. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Mosaagat Grænleitt afbrigði af agati með innlyksum af berggrænu (seladóníti) eða klóríti. Seladónít og klórít eru mjög fíngerðar leirsteindir með litla hörku (1-2,5). 

Jaspis Smákristallað kvarsfbrigði, ávallt litað aðkomuefnum, einkum járnsamböndum. Algeng holufylling í basalti og ljósgrýti. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Ópall Vatnsblandað kvarsafbrigði. Nafnið ópall (upala) er úr sanskrít og þýðir steinn. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2*nH2O

Á botni flestra stöðuvatna er að finna kísilgúr (barnamold) í mismunandi mæli. Kísilgúrinn er myndaður úr skeljaleifum örsmárra kísilþörunga. Í skeljunum er kísildíoxíð (SiO2) sem í rás tímans getur umbreyst í ópal.

Leirsteinar
Leir er notað bæði um hóp steinda og fínkornótta bergmylsnu. Efnasemsetning er breytileg en allar leirsteindir innihalda vatn. Leirsteindir hafa hörku á bilinu 1–3 og flestar má skafa upp með nögl. Á Íslandi myndast leir aðallega við ummyndun bergs á jarðhitasvæðum.

Klórít Græn- eða brúnleit skán og hrúður, stundum flögótt. Algengt á Íslandi. Myndast á nokkru dýpi við háan hita (> 200 ˚C). Nanfið grænjörð mun eiga við klórít, en klórít er komið úr grísku (chloros: grænn). Kristalgerð: mónóklín. 
(Fe, Mg, Al)6(Si,Al)4O10(OH)8

Seladónít (Illít) Blágrænt að lit, yfirleitt þunn skán utan á holufyllingum. Nafnið berggræna mun líklega eiga við seladónít. Algengt á Íslandi. Kristalgerð: mónóklín. K(Mg,Fe)(Al,Fe)Si4O10(OH)2)

Smektít (Montmorillonít) Ofast brún- eða grænleitt. Algengasta ummyndunarsteind á Íslandi. Verður til úr ólivíni, pýroxeni, kalsíumríku feldspati, basaltgleri og súrri ösku. Smektít er þýðingarmikil steind í jarðvegi vegna vatnsdrægni. Kristalgerð: mónóklín. 
(Na, Ca)(Al, Mg)6(Si4O10)3(OH)6*nH2O

Málmsteinar
Ísland er fátækt af málmsteindum. Hér finnast helst steindir sem eru sambönd málms og súrefnis (oxíð) og sambönd málms og brennisteins (súlfíð). Járnsteindir eru algengastar hér á landi.
Hér að neðan eru nokkur dæmi um innlendar málmsteindir. Nokkrar þeirra eru til sýnis í steinasafni okkar.

Brúnjárnsteinn (Límonít)  Járnoxíð með vatni. Brúnjárnsteinn finnst sem rauðbrún þunn lög í blágrýtismyndunum á Íslandi. Kristalgerð: nær myndlaus. FeO(OH)*nH2O

Mýrarauði (Límonít) Afbrigði af brúnjárnsteini. Mýrarauði finnst sem rauðleitar útfellingar í mýrum, oft á gróðri, þar sem uppleyst járnsambönd úr bergi leikur um. Mýrarauði var áður fyrr nýttur hér á landi til járnvinnslu. Kristalgerð: nær myndlaus. FeO(OH)*nH2O

Járnglans (Hematít) Járnoxíð án vatns. Smákristallað hematít kallast rauðjárnsteinn og er afar útbreitt sem fyllefni í rauðum millilögum í blágrýtismyndun Íslands. Kristalgerð: trígónal. Fe2O3

Járnglans (Hematít) Járnoxíð án vatns. Stórkristallað hematít er stálgrátt eða svart og stundum með málmgljá. Hematít er helsta málmgrýtið sem notað er erlendis í járnframleiðslu. Kristalgerð: trígónal. Fe2O3

Magnetít Svartir, teningslaga kristalar eða áttflötungar. Magnetít hefur sterka segulmögnun. Kristalgerð: kúbísk. Fe3O4

Brennisteinskís (Pýrít) Algengt á Íslandi, einkum í hitasoðnu bergi í fornum megineldstöðvum. Glópagull er annað nafn á brennisteinskís. Kristalgerð: kúbísk. FeS2

Koparkís (kalkóýrit) (eirkís) myndar gulleita, ferhyrnda litla köggla. Finnst jafnan saman með málmsteindunum blýglansi og zinkblendi. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: tetragónal. CuFeS2
Við veðrun á koparkís gengur koparinn í samband við kolsýru lofts og myndar fagurgrænt malakít (Cu2(OH2)CO3) 

Blýglans (Galena) er silfurgrátt og myndar teningslaga kristalla. Ein þyngsta steindin á Íslandi. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: kúbísk. PbS

Zinkblendi (Sphalerít) myndar brúnar, hálfgegnsæjar teningslaga flögur. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: kúbísk. ZnS