Basalt

Basalt er basískt gosberg (<52% SiO2). Helstu frumsteindir í basalti: Plagíóklas, pýroxen, ólívín og seguljárnsteinn. Af basalti eru til ýmis afbrigði. Milli 80 - 90% af öllu storkubergi hér á landi er úr basalti.

Blágrýti
Blágrýti er dulkornótt, þétt og dökkleitt basalt. Það er elsta og langalgengasta basaltafbrigðið á Íslandi og storknar sem hraun á yfirborði jarðar.

Stuðlað berg myndast við nokkuð hraða kólnun hraunkviku þegar hún rennur yfir yfirborð jarðar. Við kólnunina dregst bergið saman og klofnar í skipulegt sprungunet, oftast í sexstrendinga en stundum í fimm- eða sjöstrendinga. Lárétt för (meitlaför) í stuðlum stafa af samdrætti í stuðlasúlunni vegna kólnunaráhrifa. Stuðlar standa ávallt hornrétt á aðalkólnunarfletina, til enda á stuðlunum. Fundarstaður: Hrepphólar. Suðurland.

Grágrýti
Grágrýti er smákornótt, miðlungsþétt og ljósgrátt basalt. Grágrýtishraun runnu einkum á hlýskeiðum ísaldar og storknuðu sem hraun á yfirborði jaðrar. Náttúrufræðistofa Kópavogs stendur á grágrýtisklöpp og umhverfis Kópavogskirkju á Borgarholti er hnullungadreif úr grágrýti. Grágrýtið í Kópavogi er líklega hluti af víðáttumiklum berggrunni á höfuðborgarsvæðinu sem kallað er Reykjavíkurgrágrýti.

Reykjavíkurgrágrýtið er að mestu dyngjuhraun sem runnu á hlýskeiðum seinni hluta ísaldar fyrir um 700.000-100.000 árum. Upptök Reykjavíkurgrágrýtisins í Kópavogi eru ekki þekkt með vissu, en gætu verið á Mosfellsheiði, og aldurinn er líklega 300.000 – 400.000 ár. Síðan Reykjavíkurgrágrýtið rann hafa ýmis roföfl unnið á berginu. Síðustu merkin um mikil átök eru eftir jökulinn sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Þetta má ráða af hvalbökum og jökulrákum á hvalbökunum.

Hugtökin blá- og grágrýti vísa fyrst og fremst til litar bergsins en ekki aldurs þess. Þessi hugtök eru nú óðum á undanhaldi og í þeirra stað er notast við aldur bergsins við jarðfræðilega flokkun basaltmyndunarinnar. Þannig eru blágrýtissvæðin nú flokkuð gróflega sem bergmyndanir sem eru eldri en 3,3 milljón ára og grágrýtissvæðin sem bergmyndanir yngri en 3,3 milljónir ára. 

Móberg
Móberg er brúnleitt glerkennt basaltafbrigði og myndast við gos undir jökli eða í sjó. Þegar vatn kemst í snertingu við hraunbráð í gíg splundrast hraunkvikan og storknar sem samlímd, glerkennd gosaska og mylsna. Móbergsfjöll og móbergsstapar setja mjög mark sitt á íslenskt landslag.

Móberg er mismunandi að gerð og ræður vatnsdýpi þar mestu um. 

Bólstraberg myndast í djúpu vatni eða sjó eða undir þykkum jökli.
Móbergstúff er nær hrein, fíngerð glermylsna. 
Þursaberg er steinótt móberg.