Vaðfuglar

Vaðfuglar tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes). Á Íslandi verpa 11–13 tegundir vaðfugla reglulega og tilheyra þeir þremur ættum, tjaldaætt, lóuætt og snípuætt. Vaðfuglar eru yfirleitt langnefjaðir, háfættir og annað hvort með vaðfætur eða sundblöðkur. Ofast eru eggin fjögur og ungar klekjast vel þroskaðir úr þeim.

Ísland er mjög mikilvæg varpstöð fyrir vaðfugla í Evrópu. Talið er að allt að 20% evrópskra vaðfugla hafi búsetu á Íslandi á sumrin. Ísland er einnig mikilvægur viðkomustaður á vorin og haustin fyrir farfugla sem eiga leið milli Evrópu og Norður-Ameríku og Grænlands.

Tjaldur (Haematopus ostralegus) Tjaldaætt (Haematopodidae)
Hluti íslenskra tjalda er allt árið um kring á Íslandi, en flestir hafa vetursetu á Bretlandseyjum. Tjaldar lifa mikið burstaormum, smáum krabbadýrum og kræklingi og fleiri lindýrum sem þeir tína upp á leirum. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 10.000 pör. Vetur, Fjöldi: 2.000–3.000 fuglar.

Spói (Numenius phaeopus) Snípuætt (Scolopacidae)
Spóinn er farfugl og hefur vetursetu helst við strendur Norðvestur-Afríku, einkum í Senegal og Gíneu-Bissá. Hann heldur mest til í margs konar mýrlendi og lifir á bjöllum, tvívængjum, fiðrildum og köngulóm. Þá sækir hann mikið í ber síðsumars. Hann er vorboði og vellir graut. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 200.000 pör.

Jaðrakan (Limosa limosa) Snípuætt (Scolopacidae)
Farfugl sem hefur vetrarútbreiðlsu á Bretlandseyjum og austan Ermarsunds. Slæðist suður til Marokkó. Íslenskir jaðrakanar eru taldir vera sérstök deilitegund. Á sl. öld breiddist varpsvæði þeirra út frá S-SV. landi og verpa þeir nú í öllum landshlutum.
Sumar, Fjöldi: 30.000 fuglar. Þar af 7-10.000 pör.

Stelkur (Tringa totanus) Snípuætt (Scolopacidae)
Varpstofn stelka á Íslandi er líklega sá stærsti í Evrópu. Á veturna halda langflestir íslenskir stelkar sig á Bretlandseyjum og á strandsvæðum frá Suður-Noregi til Frakklands. Stelkar halda til í margs konar búsvæði, fjörum, mýrlendi og graslendi, og fæðan er að sama skapi fjölbreytt. Við sjó tína þeir þang- og klettadoppur, krækling og marflær. Inn til lands éta þeir meira af ýmsum skordýrum, t.d. bjöllur, púpur hrossaflugna og mýlirfur. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 50.000– 100.000 pör. Vetur, Fjöldi: 500–1.000 fuglar.

Sanderla (Calidris alba) Snípuætt (Scolopacidae)
Sanderlur eru fargestir á Íslandi. Þær koma á vorin frá Bretlandseyjum og alla leið frá Ghana í Norðvestur-Afríku. Hér dvelja fuglarnir í 2-3 vikur, einkum í sendnum fjörum Suðvestanlands, og nærast á kræklingi, þangflugum og fleiri dýrum. Að lokinni dvöl hér halda fuglarnir til Grænlands og Norður-Kanada þar sem þeir verpa. Um haust fljúgja sanderlurnar líklega sömu leið til baka til vetrarstöðvanna. Talið er að 8.000–10.000 sanderlur fljúgi um Ísland. Alfriðuð.

Tildra (Arenaria interpres) Snípuætt (Scolopacidae)
Tildrur eru bæði far- og vetrargestir á Íslandi. Þær koma hingað í kringum mánaðamótin apríl-maí frá Bretlandseyjum og alla leið frá Máritaníu í Norðvestur-Afríku. Hér dvelja tildrurnar á fjörusvæðum í 3-4 vikur og halda þá áfram til varpstöðva á Grænlandi og Norður-Kanada. Til baka fljúga sumir fuglar þegar síðla í júlí. Aðalfæða tildra eru ýmis lindýr, gljásilfri, þangdoppa og þarastrútur. Til að ná í æti velta tildrur oft við steinum. Um 40.000 tildrur fljúga um Ísland. Alfriðuð.
Vetur. Fjöldi: 2.000–5.000 fuglar.

Rauðbrystingur (Calidris canutus) Snípuætt (Scolopacidae)
Rauðbrystingur er fargestur á Íslandi. Á vorin hafa 250.000–300.000 fuglar viðkomu hér á landi, en á haustin eru þeir mun færri. Aðal viðkomustaðir eru á Vestur- og Suðvesturlandi og eru leirufjörur kjörlendi rauðbrystinga. Kjörfæða eru margs konar lindýr, t.d. kræklingur, sandskel, klettadoppa og þarastrútur. Ýmis skordýr eru einnig töluvert étin. Alfriðaður.
Vetur, Fjöldi: 10–50 fuglar.

Sendlingur (Calidris maritima) Snípuætt (Scolopacidae)
Farhættir íslenskra sendlinga eru ólíkir farháttum annarra vaðfugla og hefur hluti íslenska stofnsins hér bæði varpstöðvar og vetursetu. Helstu varpsvæðin eru á hálendinu og er fjallafæla gamalt heiti á sendlingi. Á veturna eru sendlingar í stórgrýttum sjávarfjörum og þá éta þeir mest lindýr, svo sem mærudoppur, þangdoppur og klettadoppur, auk burstaorma og krabbadýra. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 10.000 pör. Vetur, Fjöldi: 10.000–100.000 fuglar.

Lóuþræll (Calidris alpina) Snípuætt (Scolopacidae)
Lóuþrælar eru farfuglar á Íslandi. Vetursetu hafa þeir á Spáni og suður með strönd Norðvestur-Afríku til Máritaníu. Þeir verpa í mýrlendi og deigu landi og lifa mest á vatnaskordýrum, t.d. lirfum rykmýs, vatnsköttum og hrossaflugulirfum. Í sjávarfjöru tína þeir aðallega lindýr, s.s. baugasnotru, gljásilfra og krækling. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 300.000 pör.

Vepja (Vanellus vanellus) Lóuætt (Charadriidae)
Vepjur eru flækingar á Íslandi og koma hingað ár hvert. Þær eru mjög algengar um alla Evrópu og austur eftir Asíu. Varp vepja hefur verið staðfest í 15 skipti á landinu, en líklega er hér fullkalt fyrir þær. Vetrarhörkur þóttu vísar ef sást til vepja og hafa fuglarnir einnig gegnt heitinu ísakrákur. Alfriðuð.

Sandlóa (Charadrius hiaticula) Lóuætt (Charadriidae)
Farfugl. Kjörlendi sandlóa eru sendnar fjörur, grandar, melar, eyrar og ásar og þar verpa þær. Þær lifa á ýmsum smáum lindýrum og skordýrum, m.a. lirfum þangflugna sem verpa í rotnandi þanglaupa. Vetrarstöðvar sandlóa eru ekki vel þekktar, en líklega halda þær sig á Bretlandseyjum og allt niður til strandar Norðvestur-Afríku. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 50.000 pör.

Heiðlóa (Pluvialisn apricaria) Lóuætt (Charadriidae)
Farfugl. Óvíða ef nokkur staðar er jafn mikið af heiðlóu og á Íslandi. Helstu búsvæði heiðlóa eru lyng- og mosamóar á láglendi og lágum heiðum. Vetrarstöðvar heiðlóu eru frá Bretlandseyjum, Niðurlöndum og suður til Spánar. Þær lifa á fjöbreyttri fæðu, bæði jurtum og dýrum, m.a. ánamöðkum, lindýrum, skordýrum og krabbadýrum. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 300.000 pör.