Súlur og skarfar

Pelíkanaættbálkur. Af þessum ættbálki eru 3 tegundir á Íslandi og tilheyra þær súluætt (Sulidae) og skarfaætt (Phalacrocoraacidae). Í Evrópu hefur sést til alls 14 tegunda af þessum tveimur ættum. Þetta eru stórir sjófuglar, með sundfit milli allra fjögurra táa, fiskiætur og verpa á skerjum og klettum.

Súla (Morus bassanus) Súluætt (Sulidae)
Eitt af stærstu súluvörpum heims er í Eldey. Á veturna eru flestar súlur á Spáni og við Norðvestur-Afríku.

Súlan er eindreginn sjófugl og fiskiæta. Súlukast er tilkomumikil sjón. Súlan steypir sér á kaf lóðrétt hátt úr lofti, stundum úr 30 m hæð eða meira, og liggja vængirnir aftur með búknum til að draga úr loftmótstöðu og höggi þegar fuglinn klýfur vatnsflötinn. Bráðin er ýmsir fiskar, m.a. síld og sandsíli.

Súluungar hafa verið nýttir til matar hér á landi um langan tíma. Á framanverðri 20. öld var stunduð umtalsverð súlutekja í Eldey, en árið 1940 var eyjan friðlýst.

Fjöldi: Um 25.000 pör að sumri en 100–1.000 fuglar að vetri.

Dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) Skarfaætt (Phalacrocoraacidae)
Dílaskarfar urpu fyrrum umhverfis allt Ísland en nú eru byggðir þeirra aðeins við Breiðafjörð og Faxaflóa. Þeir hafa verið nytjaðir frá ómunatíð. Fæða dílaskrafa eru ýmsir fiskar, t.d. sprettfiskur, marhnútur, þorskur og loðna.

Fjöldi: Um 2.500 pör að sumri en 10.000–20.000 fuglar að vetri.