Ránfuglar

Helstu einkenni ránfugla eru hvasst og krókbogið nef, sterkar og hvassar klær og mjög skörp sjón. Til eru hátt í 300 tegundir af 5 ættum. Á íslandi verpa 3 tegundir af 2 ættum.

Haförn (Haliaeetus albicilla) Haukaætt (Accipitridae)
Ernir eru stórir ránfuglar með sterklegt, krókbogið nef og stórar bognar klær. Um 250 tegundir eru til í heiminum og verpir 1 tegund á Íslandi.
Hafernir eru rándýr og hræætur sem lifa langmest á fugli, einkum fýl og æðarfugli, og fiski. Um tíma var haförnum fundið flest til foráttu, þeir ofsóttir og hart gengið að íslenska stofninum. Haförninn hefur líka verið dáður og oft er hann kallaður konungur íslenskra fugla. Örn kemur fyrir í mörgum örnefnum og fjöldi manna ber nafn hans. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 35–40 pör. Vetur, Fjöldi: 120–150 fuglar.

Fálki (Falco rusticolus) Fálkaætt (Falconidae)
Meðalstórir ránfuglar með bogið nef og klær. Um 65 tegundir eru til í heiminum og verpa 2 tegundir á Íslandi.
Fálkinn er mjög staðbundinn fugl og trygglyndur í parsambandi líkt og örn. Sama parið verpur oft ár eftir ár á sama óðali, svæði sem fálkinn helgar sér og ver. Oftast eru óðul í klettabeltum og árgljúfrum. Rjúpan er aðalfæða fálkans, en að auki veiðir hann endur og gæsir, vaðfugla, spörfugla og hagamýs. Varpárangur og afkoma fálkaunga virðist ráðast að miklu leyti af stofnstærð rjúpu að vori. Alfriðaður.

Fálkinn var alfriðaðar árið 1940 eftir að gengið hafði verið nærri stofninum um alllangt skeið. Undir lok 19. aldar og fram á 20. öld varð fálkinn fyrir barðinu á skipulegri herferð gegn gegn svokölluðum „vargfuglum“, sem beindist einnig að haförnum. Meðal annars var stofnun og starfsemi Æðarræktarfélagsins við Breiðafjörð helguð þessari herferð seint á 19. öld (1885-1892). Fálkar og hafernir voru skotnir þar sem náðist til þeirra og greiddar 20 krónur fyrir fuglinn, sem þótti mikið fé þá. Um svipað leyti hófst herferð gegn refum og eitruð hræ borin út á víðavang. Hafernir og fálkar sóttu einnig í hræin og drápust.

Fyrr á öldum og allt fram á 20. öld voru skörð höggvin í raðir fálka vegna eggja- og ungatöku. Þegar á 16. öld var fálkatekja ein af tekjulindum Danakonungs og um aldamótin 1700 var árleg fálkatekja liðlega 100 fálkar. Mestur útflutningur á lifandi fálkum frá Íslandi var á árunum 1740-1765, en þá voru sum árin fluttir út milli 150 og 200 fálkar.

Tamdir fálkar hafa frá alda öðli verið álitnir konungsgersemi og eftisóttir til veiða og annarrar skemmtunar við aðalshirðir víða um heim. Á Íslandi hefur fálki einnig verið hafður í hávegum. Fálki var áður í skjaldarmerki Íslands og eitt æðsta heiðursmerki landsins um langan tíma, fálkaorðan, er kennd við hann.

Sumar, Fjöldi: 250–350 pör. Vetur, Fjöldi: 1.000–2.000 fuglar.

Smyrill (Falco columbarius) Fálkaætt (Falconidae)
Smyrillinn er minnstur íslensku ránfuglanna. Smyrlar eru ólíkt fálkum að mestu farfuglar og eru Bretlandseyjar helstu vetrarstöðvar þeirra. Litlir spörfuglar og vaðfuglar eru helsta fæða smyrla. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 1.000–1.200 pör. Vetur, Fjöldi: 10–100 fuglar