Pípunefir

Á Íslandi eru tvær ættir af þessum ættbálki, fýlingaætt (Procellariidae) og sæsvölur (Hydrobatidae). Þetta eru meðalstórir og litlir sjófuglar, með nasaholur sem opnast ofan á nefinu og mynda pípu. Þeir spúa lýsi og fæðuleifum til að bægja frá hættu. Af fýlingum og sæsvölum eru til um 120 tegundir í heiminum og verpa 4 þeirra á Íslandi. Að auki eru 2 tegundir (gráskrofa og hettuskrofa) reglulegir sumargestir.

Fýll (Fulmarus glacialis) Fýlingaætt (Procellariidae)
Fýlar, einnig kallaðir múkkar, eru með algengustu fuglum Íslands. Veiðar á fýlsungum voru stundaðar í nokkrum mæli áður fyrr, einkum í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Fýlar halda sig mikið á rúmsjó og sækja að skipum í von um æti. Þeir finnast einnig langt inni í landi og verpa sums staðar þar, t.d. vid Þingvallavatn.
Sumar, Fjöldi: 1–2 milljónir para. Vetur, Fjöldi: 1–5 milljónir fugla.

Skrofa (Puffinus puffinus) Fýlingaætt (Procellariidae)
Ísland er nyrsta varpland skrofu í Evrópu. Lítið er vitað um ferðir íslenskra skrofa en talið er að flestar þeirra hafi vetursetu við Suður-Ameríku. Skrofa merkt við Ísland hefur fundist við Brasilíu. Skrofur halda sig að mestu á rúmsjó og lifa líklega mest á sandsíli, síld og smokkfiski. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 7.000–10.000 pör.

Stormsvala (Hydrobates pelagicus) Sæsvöluætt (Hydrobatidae)
Stormsvala er minnsti sjófugl Evrópu. Hún verpur í holur á eyjum í júlí–ágúst, síðastur íslenskra fugla. Lítið er vitað um dvalarstað um vetur, en líklega eru þeir meðfram strönd Vestur- og Suður-Afríku. Stormsvala merkt á Íslandi hefur fundist að vetrarlagi í Alsír. Sennilega lifa stormsvölur mest á smágerðu krabbasvifi. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 50.000–100.000 pör.

Sjósvala (Hydrobatidae) Sæsvöluætt (Hydrobatidae)
Algengust á Íslandi í Evrópu og er mestallur íslenski varpstofninn í Vestmannaeyjum. Þær verpa í eyjum og höfðum og grafa út djúpar holur fyrir hreiðurstæði. Lítið er vitað um vetursetu fuglanna, en ekki er ósennilegt að þær sæki til Suður-Ameríku og Suður-Afríku. Sjósvölur halda sig að mestu á rúmsjó og lifa líklega mest á krabbasvifi. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 80.000–150.000 pör.