Máfar

Máfar eru af máfaætt (Laridae) og sama ættbálki og kjóar og þernur. Þeir teljast til strandfugla (Charadriiformes). Þessir fuglar lifa einna helst á fiski en éta einnig skordýr, fuglsunga, egg og úrgang. Goggur þeirra er sterklegur með boginn krók á endanum. Karlfuglinn er yfirleitt stærri en kvenfuglinn en að öðru leiti eru bæði kynin eins í útliti.

Fuglarnir verpa í byggðum og er eggjafjöldinn um 2-3 egg. Á Íslandi eru 7 tegundir máfa af máfaætt sem verpa að staðaldri, 2 sem hafa vetursetu og 1 sem kemur árvisst allt árið um kring. Á safninu eru 8 tegundir máffugla til sýnis en tegundir máfa eru um 45.

Hvítmáfur (Larus hyperboreus
Staðbundinn varpfugl sem einkennir helst strandsvæði Vestfjarða og Breiðafjörð. Hann er stór máfur og er eins og nafnið gefur til kynna hvítur og ljósgrár, engan dökkan blett er að finna á fuglinum. Goggur hans er stór og gulur með rauðan blett að neðan og fætur eru bleikir. Félagslyndur fugl. Varpbyggðin er stór sem helst er að finna í klettum við sjó eða bröttum hlíðum. Eggjafjöldi er 2-3 egg og er varptíminn eftir miðjan maí og út júní. Stofnstærð: 10-15 000 pör.

Svartbakur (Larus marinus
Algengur varpfugl og að mestu staðfugl. Er stærstur máfanna og oft nefndur veiðibjalla. Bak og vængir svartir, goggur gulur með rauðum blett og fætur bleikir. Félagslyndur fugl sem heldur sig gjarnan við aðra máfa. Verpur víða, frá sjó að fjalli. Varpið er oft með öðrum máfum eða einstök pör út af fyrir sig. Á veturna heldur fuglinn sig við grunnsævi eða strendur en ungfuglinn hefur vetursetu í Færeyjum og Bretlandi. Eggjafjöldi er 2-3 egg og hefst varptíminn í maí og stendur fram í júní. Stofnstærð: 15-30 000 pör.

Sílamáfur (Larus fuscus
Algengur varpfugl og er alger farfugl sem kemur snemma á vorin. Svipar til svartbaks en er minni og nettari. Hann hefur gulan gogg með rauðum bletti og gula fætur. Félagslyndur og spakur fugl sem sækir í þéttbýli. Eini máfurinn sem sækir meira í skordýr. Varpstaðir víða frá söndum og upp í fjöllum, stundum með svartbak. Eggjafjöldi er 3 egg og er varptíminn helst í júní. Stofnstærð: 25-35 000 pör

Rita (Rissa tridactyla
Staðbundinn varpfugl en að mestu farfugl. Ritan er lítill máfur sem heldur sig að mestu til úti á sjó og sést sjaldan inn til landsins. Hún hefur fínlegan gulan gogg og svarta fætur. Mjög lipur á flugi og steypir sér eftir æti líkt og kría. Mjög félagslyndur fugl sem verpir í stórum byggðum innan um aðra sjófugla. Mjög algengur fugl hér á landi og fer fjölgandi. Eggjafjöldi 1-3 egg og verpir aðallega í júní. Stofnstærð: 630 000 + pör.

Hettumáfur (Larus ridibundus

Silfurmáfur (Larus argentatus
Staðbundinn varpfugl en að nokkru leyti farfugl þar sem ungfuglar fara til Bretlandseyja. Silfurmáfurinn er stærsti máfurinn með grátt bak og svarta vængbrodda. Goggurinn er gulur og með rauðum bletti að neðan en fæturnir eru ljósbleikir. Fuglinn verpir í stórum byggðum í grasbrekkum, klettum, eyjum og söndum nærri sjó, jafnvel innan um aðra máfa.
Eggjafjöldi er 3 egg og er varptíminn frá byrjun maí og fram í júní. Stofnstærð: 15-20 000 pör.

Stormmáfur (Larus canus
Strjáll varpfugl og að mestu farfugl. Líkur silfurmáfi en nokkru minni. Stormmáfur hefur ljósgrátt bak og vængi og svarta vængbrodda. Goggur og fætur hans eru ljósgulir. Byggð varpsins er lítil eða í stökum pörum, stundum í byggð með hettumáfi. Heldur sig nærri strönd en sést einnig inn til landsins. Á veturna fer hluti fuglanna til Bretlands.
Eggjafjöldi er 2-3 egg og er varptíminn frá byrjun júní og fram í júlí. Stofnstærð: 3-400 pör.

Bjartmáfur (Larus glaucoides
Vetrargestur en hefur þó sést að sumri til. Hann líkist hvítmáfi, er stór með gulan gogg og grábleika fætur. Fimur á flugi og sundi og heldur sig mest meðfram ströndum og með öðrum máfum. Hann verpir á Grænlandi, Baffinseyjum og nálægum eyjum og eru varpstöðvarnar stórar.