Kjóar og skúmar

Kjóar og skúmar tilheyra Kjóaætt (Stercorariidae) af ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og eru aðeins 8 tegundir til í heiminum. Á Íslandi verpa kjói og skúmur, en fjallkjói og ískjói eru fargestir. Þessir fuglar eru þekktir fyrir mikla flugfimi enda lifa þeir töluvert á því að elta aðra fugla uppi og ræna þá ætinu.

Kjói (Stercorarius parasiticus
Farfugl. Á veturna halda kjóarnir sig við Suður-Afríku og hugsanlega einnig við Suður-Ameríku. Fæða kjóa er fjölbreytt. Þeir éta ber, köngulær, fiðrildi og bjöllur, egg, fuglsunga og smáfugla og kunnir eru þeir fyrir að elta sjófugla uppi og neyða þá til að sleppa ætinu úr nefinu eða æla því upp úr maganum.
Sumar, Fjöldi: 5.000–10.000 pör.

Skúmur (Stercorarius skua
Farfugl. Skúmar eru víðförlir og á veturna halda þeir til við Norðvestur-Afríku og Suður-Ameríku. Þeir geta orðið rúmlega 30 ára gamlir. Skúmar ráðast á aðra fugla og neyða þá til að sleppa ætinu, en einnig taka þeir egg, unga og drepa jafnvel stóra fugla eins og gæsir. Um helmingur allra skúma í heiminum lifir á Íslandi. Friðaður.
Sumar, Fjöldi: 5.000–6.000 pör.