Hænsnfuglar

Hænsnfuglaættbálkurinn er mjög fjölbreyttur. Hænsnfuglar eru búkmiklir landfuglar, með stutta vængi, hraðfleygir en fljúga stutt í einu. Rúmlega 300 tegundir eru til í heiminum en aðeins 12 tegundir verpa í Evrópu og á Íslandi lifir 1 tegund, rjúpan.

Rjúpa (Lagopus mutus) Orraætt (Tetraonidae)
Rjúpan er staðfugl á Íslandi og lifir hér allt árið um kring. Á sumrin er mest um þær í móum, mýrum og kjarri á láglendi og upp til fjalla. Á haustin og veturna halda þær sig mikið á heiðum og til fjalla. Aðalfæða rjúpu á sumrin eru kornsúrulaukar en á haustin og veturna éta þær mest grasvíði, fjalldrapa og ber. Miklar og allreglulegar sveiflur eru í fjölda rjúpa milli ára og líða um 10 ár milli hámarka. Þessu ræður sennilega flókið samspil nokkurra þátta, svo sem framboð fæðu, afrán rándýra, erfðaþættir og skotveiði.

Rjúpan hefur fjaðraskipti þrisvar á ári og er einstök meðal flestra fugla að því leyti, að hún fellir mikinn hluta bolfiðurs í þrígang, auk þess að fella flugfjaðrir einu sinni. Í fjaðraskiptum breytir rjúpan um lit og klæðist sumar-, haust- og vetrarbúningi, sem fellur vel inn í umhverfi rjúpunnar eftir árstíðum.
Sumar, Fjöldi: 50.000–200.000 pör. Vetur, Fjöldi: Allt að 1 milljón fuglar