Gæsir

Gæsir eru hóphneigðir fuglar, fljúgja oddaflug og skvaldra mikið á flugi. Þær eru að mestu jurtaætur og lifa á villtum jurtum auk þess að nýta sér túnrækt. Um 25 gæsategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa 3 tegundir og að auki hafa sést 6 tegundir.

Andfuglar (Anseriformes), andaætt (Anatidae)
Andfuglaættbálkur. Andfuglar eru meðalstórir og stórir votlendisfuglar, jurta- og skordýraætur. Þeir fella allir flugfjaðrir samtímis við fjaðraskipti og eru þá ófleygir. Um 150 tegundir eru til í heiminum og verpa 22 tegundir á Íslandi.

Mikilvæg búsvæði
Skerjafjarðarsvæðið, Leirvogur og Grunnafjörður eru meðal þeirra staða sem eru afar mikilvægir fyrir íslenska far- og umferðarfugla. Á þessum stöðum staldrar m.a. margæsin við á ferð sinni milli Bretlandseyja þar sem hún dvelur á veturna og Kanada og Grænlands þar sem hún verpur á sumrin. Á Skerjafjarðarsvæðinu er mest um fuglana á Lambhúsatjörn, Bessastaðanesi, Arnarnesvogi og Kópavogsleiru. Um 200 margæsir hafa haldið sig á vorin á Kópavogsleiru undanfarinn áratug. Kópavogsleira ásamt ströndinni frá Bala í Garðabæ og í odda Kársness í Kópavogi er á náttúruminjaskrá. Kópavogsleira nýtur auk þess sérstakrar bæjarverndar.

Marhálmur (Zostera marina)
Marhálmur er eina blómstrandi háplantan sem vex að öllu leyti í sjó við Ísland. Plantan getur orðið allt að 1 m á lengd. Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla af andaætt, einkum margæs og álft. Hann er einnig þýðingarmikill sem búsvæði fyrir þörunga og hryggleysingja og bindur saman leir- og sandbotn, líkt og melgras gerir á þurru landi. Áður fyrr var búfénaði beitt á marhálm þegar heyfengur var rýr. Þá var hann nýttur sem stopp í sængur og dýnur.

Grágæs (Anser anser
Langflestar grágæsir dvelja á Bretlandseyjum yfir veturinn. Gæsir lifa á ýmsum ræktuðum og villtum gróðri, t.d. kornsúrulaukum, elftingastönglum og berjum. Stofninn hefur minnkað allra síðustu ár og kann það að vera vegna mikillar skotveiði.
Sumar, Fjöldi: 10.000–20.000 pör. Vetur, Fjöldi: 500 fuglar.

Heiðagæs (Anser brachyrhynchus
Stærsta heiðagæsabyggð í heimi er í Þjórsárverum við Hofsjökul og er Ísland eina Evrópulandið þar sem hún verpir. Þjórsárver eru verndað friðland og mikilvægt votlendissvæði í heiminum fyrir fugla. Á Eyjabökkum við Vatnajökul er langstærsta fjaðrafellistöð heiðagæsarinnar. Heiðagæs lifir á störum, hálmgresi, fífum, elftingu og fleiri jurtum. Fyrr á öldum var stundaður gæsarekstur í Þjórsárverum og fuglinn nytjaður. Hlaðnar voru gæsaréttir og ófleygum fugli smalað í þær.
Sumar, Fjöldi: 20.000–25.000 pör. Vetur, Fjöldi: 220.000 fuglar.

Helsingi (Branta leucopsis
Fargestur, en þó hafa örfá pör orpið hér á landi á sumrin. Lifir mest á kornsúrurótum, störum og túngrösum og sækir í ber á haustin líkt og margar aðrar gæsir. Helsingjaveiðar hafa verið aflagðar allsstaðar í heiminum nema á Íslandi.
Sumar, Fjöldi: 5–10 pör. Vetur, Fjöldi: 35.000 fuglar.

Helsingjanef (Lepas sp.)
Krabbadýr (Crustacea)
Helsingjar og margæsir þóttu fyrr á öldum dularfullir fuglar. Þeir birtust allt í einu á vorin, hurfu eftir skamma viðdvöl og sáust ekki aftur fyrr en um haust er þeir hurfu á nýjan leik. Enginn vissi um uppruna eða dvalarstað fuglana. Því var engin furða að fuglarnir voru í þá daga taldir komnir úr helsingjanefjum, krabbadýrum sem eru náskyld hrúðurkörlum og líkjast nokkuð nefi Helsingja. Helsingjanef lifa ekki við Ísland en rekur stundum hingað á ýmsum hlutum.

Blesgæs (Anser albifrons) A
Fargestur. Blesgæsastofninn er smár. Lifir einkum á votlendisgróðri, túngresi, elftingarótum, kornsúru, bláberjum og fleiri jurtum.
Vor og haust, Fjöldi: 1.500–2.000 pör. Vetur, Fjöldi: 32.000 fuglar.

Akurgæs (Anser fabalis
Flækingur. Verpur í Norður-skandinavíu og austur um Síberíu.

Snjógæs (Anser caerulescens
Flækingur frá N-Ameríku.

Margæs (Branta bernicula
Fargestur. Alfriðuð. Ólíkt öðrum gæsum halda margæsir sig mest á sjó og við sjávarströndina. Kjörsvæði eru grunnir og skjólsamir firðir og vogar þar sem eru lífríkar leirufjörur. Margæs lifir mikið á marhálmi en étur einnig þörunga og smádýr.
Vor og haust, Fjöldi: 1.500–2.000 pör? Vetur, Fjöldi: 15.000–16.000 fuglar.