Endur

Um 100 andategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa óvenjumargar tegundir, alls 17, og að auki hafa sést 16 tegundir. Karlfuglar, steggir, eru flestir litskrúðugir, en kvenfuglar, kollur, ofast brúnlitar. Buslendur ná í æti í vatnsborði eða standa á haus og teygja sig eftir í æti á botni. Kafendur og fiskiendur kafa eftir æti.

Andfuglar (Anseriformes), andaætt (Anatidae).
Andfuglaættbálkur. Andfuglar eru meðalstórir og stórir votlendisfuglar, jurta- og skordýraætur. Þeir fella allir flugfjaðrir samtímis við fjaðraskipti og eru þá ófleygir. Um 150 tegundir eru til í heiminum og verpa 22 tegundir á Íslandi.

Stokkönd (Anas platyrhynchos
Að æðarfugli undanskildum er stokkönd algengasta og útbreiddasta andategund á Íslandi. Hún er buslönd og étur ýmsan vatna- og landgróður auk smádýra á borð við mýlirfur, brunnklukkur, efjuskeljar og vatnabobba.
Sumar, Fjöldi: 10.000–15.000 pör. Vetur, Fjöldi: 20.000–40.000 fuglar

Rauðhöfðaönd (Anas penelope
Flestar rauðhöfðaendur hafa vetursetu á Bretlandseyjum, en þær hafa einnig sótt til Suður-Evrópu og Norður-Ameríku. Rauðhöfðaönd er buslönd og lifir mest á fræum og öðrum plöntuhlutum.
Sumar, Fjöldi: 4.000–6.000 pör. Vetur, Fjöldi: 500–2.000 fuglar.

Urtönd (Anas crecca
Urtönd er buslönd sem lifir á ýmsum plöntufræjum og smádýrum, svo sem mýlirfum og vorflugulirfum. Eins og títt er um aðrar endur nærast fullorðnar urtendur einkum á dýrafæðu á meðan þær eru með unga.
Sumar, Fjöldi: 3.000–5.000 pör. Vetur, Fjöldi: 100–500 fuglar.

Skúfönd (Aythia fuligula)
Skúfönd er kafönd og fremur nýr landnemi á Íslandi. Fyrsta skráða heimildin um hana er frá 1895. Langflestar skúfendur halda til á Bretlandseyjum yfir veturinn. Skúfendur eru að mestu dýraætur og lifa á rykmýslirfum, vatnabobbum, botnkröbbum og hornsílum.
Sumar, Fjöldi: 6.000–8.000 pör. Vetur, Fjöldi: 100–200 fuglar.

Duggönd (Aythia marila
Flestar duggendur hafa vetursetu á Bretlandseyjum og í Hollandi. Duggönd er kafönd og lifir mest á ýmsum smádýrum, t.d. á botnkröbbum, vatnabobbum og rykmýslirfum. Egg dugganda og skúfanda hafa verid nytjuð um langan tíma.
Sumar, Fjöldi: 4.000–6.000 pör. Vetur, Fjöldi: 50–150 fuglar.

Húsönd (Bucephala islandica
Húsönd verpur hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Hún verpur í hraungjótum og gjarnan í hlöðum og öðrum útihúsum. Húsönd er kafönd og á sumrin lifir hún mest á bitmýi. Er hún alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 800 pör. Vetur, Fjöldi: 1.700–1.800 fuglar.

Hávella (Clangula hyemalis
Hávella er kafönd og á sumrin lifir hún á skötuormum og fleiri botnkröbbum. Á veturna þegar hávella er á sjó lifir hún á kræklingi, þarastrúti, marflóm og fleiri hryggleysingjum.
Sumar, Fjöldi: 1.000–3.000 pör. Vetur, Fjöldi: 10.000–100.000 fuglar.

Gulönd (Mergus merganser
Gulönd er eindregin fiskiönd og lifir mest á hornsíli og seiðum laxfiska. Stundum verpur hún í gömul fálka- og hrafnshreiður. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 300 pör. Vetur, Fjöldi: 5.00–1.500 fuglar.

Toppönd (Mergus serrator
Toppönd er fiskiönd og á sumrin lifir hún mest á hornsíli. Á veturna þegar hún er á sjó lifir hún á ýmsum fiskum, t.d. sprettfiski og ufsaseiðum.
Sumar, Fjöldi: Um 2.000–4.000 pör. Vetur, Fjöldi: 5.000–15.000 fuglar.

Straumönd (Histrionicus histrionicus
Straumendur verpa hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Á sumrin halda þær sig að mestu við straumharðar ár og læki. Straumönd er kafönd og hún lifir aðallega á lirfum bitmýs og vorflugna. Að vetri halda þær sig gjarnan við brimasamar strendur og gegna því einnig nöfnunum brimdúfur og brimmáfar. Helsta fæðan í sjó eru burstaormar, þanglýs, nákuðungar og fleiri hryggleysingjar. Þurrkaður straumandarhaus var áður fyrr talinn mikill verndargripur. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 2.000–3.000 pör. Vetur, Fjöldi: 10.000–15.000 fuglar.

Æðarfugl (Somateria mollisima
Æðarfugl er langstærsti andastofn á Íslandi og ólíkt öðrum andfuglum heldur hann sig nær einvörðungu á sjó árið um kring. Fæðan eru ýmis dýr, einkum kræklingur og fleiri lindýr, sem fuglinn kafar eftir á grunnsævi. Miklar nytjar hafa verið af dúni og eggjum æðarfugla um langan tíma. Æðarfugl var fyrstur íslenskra fugla sem var alfriðaður, árið 1847.
Sumar, Fjöldi: Um 300.000 pör. Vetur, Fjöldi: Um 930.000 fuglar.